151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef með mikilli ánægju fylgst með því brautryðjandastarfi sem hefur fari fram á Reykjalundi varðandi þessi mál sérstaklega. Það er auðvitað ekkert ánægjuefni hversu algeng eftirköst Covid-19 eru. Það er um leið afar mikilvægt að haldist í hendur þekkingaröflun, rannsóknir og síðan þróun á þjónustu fyrir þann hóp sem sannarlega situr uppi með eftirköst eftir sjúkdóminn. Ég hef nú þegar ráðstafað fjármagni til Reykjalundar til að efla þessa þjónustu, þ.e. endurhæfingarþjónustu fyrir þau sem búa við eftirköst vegna Covid-19. Á fundi mínum með forystufólki á Reykjalundi ræddum við líka sérstaklega samstarf, bæði rannsóknasamstarf og þekkingarsamstarf, milli Landspítala, Reykjalundar og erlendra aðila í þessu efni.

Við búum náttúrlega við alveg einstakar aðstæður að því er varðar hversu nálægt við erum hverjum og einum í kerfinu okkar, að það hafi farið fram greining á hverju einasta tilviki, að við höfum farið í smitrakningar líka á hverju einasta tilviki. Þessi vísindalegi grunnur, þessar forsendur eru allar saman mjög sterkar. Vísbendingar eru um að það kunni að vera eftirköst af andlegum toga, þ.e. sem varða geðheilsuna, og það þarf að vakta mjög vel. Við erum með sérstakan stýrihóp á vegum ráðuneytisins, sem er stýrt af embætti landlæknis, sem hefur það hlutverk eingöngu að vakta geðheilsu og þörf á geðheilbrigðisþjónustu í faraldrinum.