151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hressilega hvatningu. Það er nú ekki þannig, þetta fyrirkomulag, að ég komi hér í ræðustól Alþingis og taki ákvarðanir um að aflétta sóttvarnaaðgerðum eða slaka á þeim. Ég vil bara undirstrika það sem ég hef áður sagt að vilji okkar er sá að aflétta þessum aðgerðum eins og nokkurs er kostur því að við þurfum alltaf að geta rökstutt það með tilvísun til sóttvarna ef við erum yfir höfuð með einhverjar takmarkanir á því sem fólk getur gert. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þætti sem lúta að lýðheilsu í víðari skilningi og þá vil ég nefna það, af því að ég talaði áðan um sérstakan stýrihóp til að vakta geðheilsu, að annar slíkur hefur verið settur á laggirnar til að vakta sérstaklega lýðheilsubreytur í gegnum Covid. Það er auðvitað líka mjög mikilvægt. Þar erum við að tala um þætti eins og hreyfingu, samveru, mataræði, svefn o.s.frv. Þetta þurfum við allt saman að vakta (Forseti hringir.) vegna þess að við þurfum að byggja ákvarðanir okkar á þekkingu og staðreyndum.