151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í samtali mínu við hv. þingmann hér fyrr í umræðunni þá verður það aldrei þannig að íslenskum ríkisborgara verði vísað frá landinu, það gengur augljóslega ekki. Hvað tekur hins vegar við og hvernig framkvæmdin verður er spurning sem er enn ósvarað og við skoðum með hliðsjón af jafnræði og meðalhófi og öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins, því að það þurfum við allt saman að uppfylla.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um framkvæmdina að því er varðar það að sýna neikvætt PCR-próf við byrðingu á brottfararstað, eins og það heitir. Þetta er í raun og veru tvöföld skylda. Það er annars vegar skylda ferðamannsins, sem er eitthvað sem við getum gert áskilnað um á grundvelli sóttvarnalaga, og hins vegar er það það sem lýtur að skyldu rekstraraðilans í fluginu. Það snýst um loftferðalög þannig að það er annar lagagrunnur sem er þar á ferðinni. En eins og Danir hafa gert það hingað til hefur fyrst og fremst verið miðað að því að skyldan sé á ferðamanninum sjálfum og hitt liggi í raun og veru þar að baki.