151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með forseta að hafa ekki talið hversu oft ég hef komið upp en það munu vera 22 skipti núna. Ég vil enn og aftur þakka þinginu fyrir mjög góða umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skiptumst á skoðunum um þær ráðstafanir sem verið er að ráðast í. Það eru í raun og veru alltaf fjórir þættir til umræðu hverju sinni. Það er í fyrsta lagi staða faraldursins, í öðru lagi staða sóttvarnaráðstafana innan lands, það er í þriðja lagi staða sóttvarnaráðstafana á landamærunum og í fjórða lagi staða bólusetninga. Og allir þessir þættir spila saman með einhverjum hætti. Eins og staðan er akkúrat núna þá getum við aldeilis verið sátt. Við getum verið ánægð með þá stöðu sem við erum í. Við höfum lært það í faraldrinum að það er eins gott að grípa tækifærið þegar ástæður eru til að vera ánægð með stöðu okkar. Við gerum það sannarlega núna og það er ástæða til þess. Það er gott útlit að því er varðar bólusetningar. Við erum með gott og harðsnúið lið í því að framkvæma bólusetningarnar. Við höfum ástæðu til að vera bjartsýnni en áður að því er varðar afhendingaráætlanir efnanna. Staða faraldursins er góð og sterk og stemningin í samfélaginu er algerlega skýr: Við ætlum að hafa sigur í baráttunni við Covid-19.