151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort við fylgjum í þessu frumvarpi allt öðru fyrirkomulagi en þekkist á Norðurlöndunum. Hér erum við að ræða frumvarp um breytingu á innflytjendalöggjöf sem á við um þá þjónustu sem fólk sem búið er að fá hér stöðu hlýtur í samfélaginu. Við erum ekki að ræða útlendingalögin sem slík í þessu frumvarpi. Ef við berum saman það sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi og raunar er gert í dag á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þá er verið að forma það betur í þessu frumvarpi. Þetta frumvarp snýst í rauninni bara um það sem hv. þingmaður sagði, að samræma stöðu Fjölmenningarseturs og skapa því þá lagastoð að geta sinnt sínu hlutverki. Ef við berum það saman við öll hin Norðurlöndin erum við einfaldlega að gera eiginlega nákvæmlega það sama nema við urðum að gera það hér til prufu í eitt ár þar sem önnur lönd gera fast í tvö til þrjú ár. Við erum líka að gera sveitarfélögunum það valfrjáls hvort þau taki þátt í þessu á meðan það er t.d. ekki valfrjálst í ákveðnum nágrannalöndum okkar. Sveitarfélögin þar skulu bara taka þátt í þessu. Þannig að ég skil ekki spurningu hv. þingmanns sem lýtur að þessu máli. Hann verður eiginlega skýra hana betur þannig að sá sem hér stendur skilji hana.