Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði sagt það alveg skýrt að við erum hér að ræða frumvarp sem er út af fyrir sig afar þröngt og fjallar um afar afmörkuð málefni. En þarna er um að ræða eins konar fínstillingu á vél sem er náttúrlega bara sprungin. Og um það er mín spurning til hæstv. ráðherra. Ég er að inna ráðherra eftir því hvort hann sé ekki sammála því að ræða þurfi stefnumörkun í þessum málaflokki. Þá er ég ekki að tala um aðkomu sveitarfélaga að þessu heldur í málaflokknum í heild sinni, að ræða það á miklu breiðari grundvelli. Og þær tölur sem hér liggja fyrir og ekki eru umdeildar frá Útlendingastofnun fela í sér markverð skilaboð, annars vegar um að þetta móttökukerfi sýnist algerlega vera sprungið miðað við þessar háu tölur í samanburði, og hins vegar að við virðumst fylgja stefnu í málaflokknum í heild sinni, á breiðum grundvelli, sem er allt önnur en sem hin Norðurlöndin, a.m.k. flest þeirra, hafa tekið upp.