Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um hvað snýst samræmd móttaka flóttafólks, það frumvarp sem við ræðum hér um breytingar á innflytjendalögum? Við erum ekki að ræða útlendingalögin sem slík. Við erum að ræða hvaða þjónustu það fólk fær sem samfélagið okkar hefur ákveðið að taka á móti, hvort sem það eru kvótaflóttamenn eða fólk sem sækir um vernd o.s.frv. Það snýst um hvaða þjónustu við ætlum að veita þessum einstaklingum. Ætlum við að aðstoða þá við íslenskunám? Ætlum við að aðstoða þá við að aðlagast samfélaginu? Það er það sem þessi samræmda móttaka snýst um, nokkuð sem við höfum gert á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá 1991 og erum núna að færa það í annað form sem er að Fjölmenningarsetrið sjá um þetta. Um þetta snýst þetta.

Það er af sem áður var og að hér séu flokkar á Alþingi orðnir ósammála um að við aðstoðum þá einstaklinga við að aðlagast samfélaginu sem koma til landsins og eru búnir að fá hér stöðu. Ég get ekki skilið þessar vangaveltur og opinbera umfjöllun í fjölmiðlum um þetta mál undanfarið öðruvísi en svo að hér sé flokkur á Alþingi sem vilji það ekki. Um það snýst þetta mál. Við erum að samræma það sem er á öllum hinum Norðurlöndunum. Það er það sem málið snýst um.