151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig á að svara þessu en þetta frumvarp er kostnaðarmetið. Ég rakti hér áðan með hvaða hætti þessir fjármunir hafa verið að renna í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Við erum að jafna þjónustuna. Við erum að gera minna fyrir kvótaflóttafólk, við erum að auka þjónustu fyrir aðra sem koma hingað og fá dvalarleyfi á öðrum forsendum, sem eru búnir að fá stöðu í landinu. Þetta snýst ekki um hversu marga við ætlum að taka til landsins eða með hvaða hætti, það er umræða um útlendingamál og útlendingalögin. Hér erum við að tala um hvað þjónustu einstaklingar þurfa á að halda til að aðlagast íslensku samfélagi þegar þeir eru komnir inn. Það er eiginlega þyngra en tárum taki að hér skuli vera stjórnmálaflokkur á Alþingi Íslendinga sem vill ekki hafa gegnsæi á því með hvaða hætti við ætlum að koma best til móts við þetta fólk og aðstoða það við að aðlagast íslensku samfélagi. (Forseti hringir.) Allt annað eru dylgjur og útúrsnúningur sem hv. þingmaður er að reyna að bera hér á borð í pólitískum tilgangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(BirgÞ: Hvað kostar frumvarpið?)