151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:17]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Í því frumvarpi sem við ræðum hér erum við að styrkja Fjölmenningarsetur. Við erum að fela Fjölmenningarsetri aukið hlutverk í því að tengja saman sveitarfélög annars vegar og flóttafólk hins vegar.

Varðandi ráðgjafarstofu innflytjenda vil ég síðan segja að hún er ekki ríkisstofnun. Þetta er tilraunaverkefni til eins árs, samstarfsverkefni á milli allra aðila, þar á meðal Fjölmenningarseturs, um að geta veitt innflytjendum betri þjónustu. Það byggir í rauninni á þingsályktunartillögu sem samþykkt var hér á Alþingi sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fyrsti flutningsmaður að. Það er nú einu sinni þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt eitthvað þá ber framkvæmdarvaldinu að fara eftir því.