151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:23]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem ég er að reyna að velta upp er það sem hæstv. ráðherra talar um sem skýr lagaleg skil, en það er það sem ég myndi kalla ákveðið lagalegt tómarúm. Útlendingastofnun og lög um útlendinga ná vissulega yfir fólk sem kemur og sækir um hvers konar stöðu hér á landi. En raunin er sú, og ég veit að hæstv. ráðherra stjórnar því ekki, að málsmeðferð innan Útlendingastofnunar getur verið frá einu ári upp í tvö ár. Á meðan fólk bíður því eftir að fá synjun eða samþykki á umsókn sinni þá er ekkert innan félagslega kerfisins sem virðist grípa það fólk. Við getum tekið dæmi um börn sem eru búin að bíða með foreldrum sínum í tvö ár eftir að fá samþykki eða synjun, hafa þau fengið að ganga í skóla eða hafa þau fengið að upplifa öryggi sem börn þau tvö ár?