151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við þessu er að einstaklingar sem ekki hafa fengið stöðu hér eru í umsjá Útlendingastofnunar og dómsmálayfirvalda. Ekki tekur við varanleg aðlögun að samfélaginu sem þetta frumvarp snýr að fyrr en einstaklingurinn hefur fengið það endanlega svar að hann geti dvalið áfram í landinu og fái stöðu sem slíkur. Þá tekur við það kerfi sem við erum að nota til að aðstoða fólk við að aðlagast samfélaginu, læra íslensku og allt það sem við leggjum áherslu á í daglegu tali. Við þurfum hins vegar á hverjum tíma að reyna eins og við getum að stytta þennan málsmeðferðartíma og ég tek undir það með hv. þingmanni að það tekur of langan tíma. En ég geld varhug við því að hætta að draga skýra línu þarna á milli vegna þess að þegar einstaklingar eru búnir að fá stöðu í landinu á samfélagið að gera allt sem það getur til að aðstoða þá við að aðlagast því. En ef einstaklingar eru ekki búnir að fá hana eru þeir einfaldlega ekki komnir á þann stað að samfélagið eigi að grípa inn með jafn róttækum hætti og þegar þeir eru búnir að fá stöðu.