151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Það sætir nokkurri furðu að þetta mál skuli dúkka upp aftur. Það birtist ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þetta þing þegar hún var upphaflega kynnt og það er ekki í nokkru samræmi við þann raunveruleika sem blasir við, enda hefur ráðherrann engin svör önnur en þau að reyna að stimpla gagnrýnendur með dylgjum og með því að gera þeim upp skoðanir. Það sem stefnt er að með þessu frumvarpi gengur þvert á það sem önnur Norðurlönd eru að gera og eru að gera í ljósi reynslunnar, í ljósi áratugareynslu, biturrar reynslu, eins og stjórnvöld, til að mynda í Danmörku, lýsa sjálf. Íslensk stjórnvöld ráða ekkert við þetta verkefni eins og það stendur núna. Því þá að leggja til að það verði gert margfalt erfiðara en líta á sama tíma fram hjá áhrifum eins og kostnaði, og halda því fram að það að veita margfalt fleirum sömu þjónustu og er tryggð afmörkuðum hópi núna, hópi kvótaflóttamanna, kosti ekkert eða sé á færi einhverra annarra ráðherra að meta? Afleiðingin kemur með þessu frumvarpi.

Þetta er ekki leiðin til að hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda. Þvert á móti, herra forseti. Eins og hjálparstofnanir og meira að segja sjálft Evrópusambandið hafa bent á er meiri hluti þeirra sem sækja um hæli ekki eiginlegir flóttamenn heldur förufólk og kemur af ýmsum ástæðum, auðvitað fyrst og fremst til að leita betri lífskjara. Ísland hefur rýmkað mjög skilgreininguna á því hverjir eigi rétt á hæli hér á sama tíma og önnur Norðurlönd hafa farið í öfuga átt. Menn virðast einfaldlega ekki átta sig á því hvernig þetta gengur fyrir sig. Það vita stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum og hefur verið fjallað mjög mikið um í umræðu þar, ekki hvað síst síðustu misseri og raunar alveg frá árinu 2015 þegar mikil fjölgun varð á umsóknum.

Glæpagengi, oft og tíðum stórhættuleg glæpagengi, selja ferðir til Vesturlanda, auglýsa þær á samfélagsmiðlum, halda úti Facebook-síðum, dreifa dreifibréfum á götuhornum og fylgjast mjög vel með hvaða áfangastaðir eru vænlegastir og hvaða leiðir eru bestar á þá áfangastaði. Svo er jafnvel aleigan tekinn af fólki til að senda það oft og tíðum í lífshættulega ferð, selja því falskar vonir. Ísland eitt Norðurlanda virðist skorta skilning á því hvernig þetta gengur fyrir sig, heildarsamhengi þessara mála. Nú er staðan orðin sú að það berast sexfalt fleiri hælisumsóknir til Íslands en til Danmerkur og Noregs hlutfallslega, og meira að segja fleiri en til Svíþjóðar. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það gerðist annars vegar vegna þeirra skilaboða og reglubreytinga sem hin Norðurlöndin, ekki hvað síst Noregur og Danmörk, hafa verið að senda út og þetta gerðist líka vegna þeirra skilaboða sem hafa ítrekað borist frá Íslandi (KÓP: Frá Miðflokknum?) þar sem Ísland er í raun auglýst sem áfangastaður. Þegar staðan er orðin sú að við förum í öfuga átt við hin Norðurlöndin samtímis því að þau eru að herða sínar reglur er með því verið að setja stóran rauðan hring utan um Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir þá sem skipuleggja þessar ferðir.

Dönsk stjórnvöld gengu meira að segja svo langt fyrir nokkrum árum að auglýsa í Miðausturlöndum að þeir sem sæktu þar um hæli yrðu látnir afhenda eigur sínar. Þetta var mjög langt gengið að flestra mati og að mínu mati líka en líklega ætluðu þeir aldrei að ganga alla leið með þetta. Tilgangurinn var hins vegar sá að senda út þau skilaboð að Danmörk væri ekki staður þar sem menn gætu vænst þess að fá alla þá ókeypis þjónustu sem þeir sem höfðu reynt að selja ferðirnar höfðu talið fólki trú um.

Finnar lentu í því fyrir fáeinum árum að skyndilega bárust umsóknir og ekki bara umsóknir heldur mættu 50.000–60.000 Írakar til Finnlands. Finnar áttuðu sig ekki á því hvað hefði gerst fyrr en í ljós kom að það sem þeir töldu tiltölulega smávægilega breytingu á innflytjendalögunum þar í landi hafði fært straum sem áður lá til Belgíu til Finnlands. Hér erum við hins vegar ekki að ræða smávægilega breytingu. Hér erum við að ræða grundvallarbreytingu sem felur það í sér að veita eigi þeim sem koma hingað og fá hæli á einhverjum forsendum alla sömu þjónustu og því fólki sem við bjóðum til landsins sem kvótaflóttamönnum. Ísland hefur lagt metnað sinn í að taka vel á móti þeim sem við bjóðum hingað en nú á þetta að ná yfir allan þann fjölda, þau hundruð sem verða svo væntanlega þúsundir, verði þetta samþykkt, sem hingað leita.

Danskir jafnaðarmenn, sósíaldemókratar í Danmörku, hafa birt stefnu í innflytjendamálum sem miðar að því að læra af reynslunni, ekki bara af reynslu síðustu ára eða missera heldur af reynslu undanfarinna áratuga. Sú stefna gengur ekki hvað síst út á það að beina fólki annað, beina fólki í eðlilegan farveg, þ.e. að það sæki um að fá að vera boðið til landsins. Forsætisráðherra Danmerkur gekk meira að segja svo langt fyrir fáeinum vikum að lýsa því að markmiðið væri að enginn sækti um hæli í Danmörku. Danir munu áfram taka við kvótaflóttamönnum en þeir vilja sjálfir hafa stjórn á því hverjum er boðið til landsins. Þeir vilja ekki að Danmörk verði áfangastaður glæpagengja sem selja fólki ferðir upp á von og óvon. Og Danir eru meira að segja að leggja drög að móttökustöð fyrir flóttamenn í Afríku eða Miðausturlöndum.

Stefnan gengur líka út á mikilvægi aðlögunar. Þar er átt við raunverulega aðlögun að samfélaginu, að þeir sem fá að koma til Danmerkur, er boðið þangað, aðlagi sig að grundvallarreglum og gildum samfélagsins. Því fylgir að auðveldara verður að að vísa þeim sem hafa gerst sekir um glæpi í burtu en það hefur verið vandamál að eiga við það á Íslandi og í fleiri löndum. Niðurstaða danskra sósíaldemókrata var sú, og þeir lýsa því þannig, að sterkt velferðarkerfi og sú opnun landamæranna sem hafði átt sér stað í innflytjendamálum færu ekki saman. Ekki væri hægt að halda úti sterku velferðarkerfi og hafa landið opið á sama tíma. Danskir jafnaðarmenn hafa lengi talið sig varðmenn velferðarkerfisins og vilja vera það áfram, en gera sér grein fyrir því að ef halda á úti sterku velferðarkerfi þá þarf einhverjar aðgangshömlur að því kerfi.

Á meðan er farið í þveröfuga átt hér á Íslandi. Það kemur í kjölfar þess að ítrekað er litið fram hjá Dyflinnar-reglugerðinni sem kom ekki til að ástæðulausu því að þátttaka í Schengen er á allt öðrum forsendum. Ef Dyflinnar-reglugerðin er ekki virt þá virkar Schengen-samstarfið í raun bara í aðra áttina. Það hefur líka ítrekað verið tekið á móti fólki sem hefur þegar fengið hæli annars staðar í Evrópu. Við norðurströnd Frakklands er fjöldi hælisleitenda sem margir hverjir hafa þegar fengið hæli í Frakklandi en þeir vilja bara til Bretlands þar sem þeir telja hag sínum betur borgið en í Frakklandi. Og hvernig skyldi þetta þá, þessi rýmkun, sú staðreynd að litið er fram hjá Dyflinnarreglugerðinni, sú staðreynd að hæli er veitt þó að hæli hafi verið veitt annars staðar, fara saman við það sem stefnt er að með frumvarpinu sem hér er til umræðu. Það myndi þýða að ekki aðeins væri Ísland komið rækilega á kortið á upphafsstöðunum heldur einnig hjá þeim sem hafa fengið hæli í öðrum Evrópulöndum og sjá þá kostina við að fara yfir opnu landamærin innan Schengen til Íslands þar sem þeir eigi þá meiri kröfu á þjónustu en í því landi sem veitti þeim hæli. Með öðrum orðum þá blasir við að áhrif þessarar lagasetningar, verði frumvarpið að lögum, verði þau að stórauka þann mikla fjölda sem sækir til Íslands og þá hlutfallslega umfram hin Norðurlöndin, auka hann enn. Því fylgir augljóslega kostnaður þó að með einhverjum undarlegum og óskiljanlegum leiðum sé reynt að líta fram hjá því í frumvarpinu. Því fylgir mikill kostnaður og það mun hafa áhrif, m.a. á getu okkar til að taka vel á móti fólki, m.a. því kvótaflóttafólki sem við bjóðum hingað. En það hefur líka áhrif á getu okkar til að hjálpa annars staðar því að þótt stjórnvöld víða á Vesturlöndum vilji sýna góðmennsku sína með aðgerðum heima fyrir þá skortir mjög á að þau veiti aðstoð þar sem hún kemur að mestu gagni.

Líbanon hefur tekið við fleiri flóttamönnum en flestöll önnur lönd í heiminum. Land sem er búið að ganga í gegnum gríðarlega erfiðleika, grimmilega borgarastyrjöld og efnahagshrun, er að miklu leyti látið eitt um að sjá um flóttamennina sem þangað koma. Auðvitað er veittur stuðningur en ekki nógu mikið til að gera líbönskum stjórnvöldum kleift að standa undir þessu mikla verkefni. Tyrkland, vegna legu sinnar, hefur reyndar líka tekið við miklum fjölda flóttamanna en þar fóru stjórnvöld þá leið að hóta Evrópulöndunum því að opna fyrir strauminn til Evrópu ef Evrópusambandið borgaði ekki. Svoleiðis að allar yfirlýsingar þessara leiðtoga í Evrópu, um að allir væru velkomnir, reyndust ekki innihaldsríkari en svo að menn kusu frekar að borga en að láta Tyrkina opna.

Það sem blasir við er gríðarlega stórt viðfangsefni og þess vegna verðum við að líta til staðreynda og byggja lausnirnar á þeim til þess að það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar, og við eigum að mínu mati að auka verulega stuðning við fólk í neyð, nýtist sem best og nýtist þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda. En með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til er verið að gera okkur erfiðara fyrir að aðstoða fólk. Það er í raun verið að vega að þeim sem fyrir vikið munu ekki fá þjónustu og ýta undir að þeir sem eiga síður rétt á þjónustunni sæki í hana. Þetta er staðreynd sem blasir við í öðrum löndum og hefur gert lengi. Önnur lönd hafa lært af reynslunni og eru nú að gera ráðstafanir sem ganga þvert á það sem íslensk stjórnvöld leggja til. Önnur lönd með sínum aðferðum, eins og Danir og danskir jafnaðarmenn með sinni stefnu, munu gera miklu meira gagn fyrir þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda en íslensk stjórnvöld með þeirri sýndarmennsku, ófjármögnuðu sýndarmennsku, sem birtist í þessu frumvarpi. Því miður er hættan sú að jafnvel þótt áhrifin af þessu komi fljótt í ljós muni líða á löngu áður en Íslendingar grípa til ráðstafana og læra af reynslunni. Það sýnir reynsla annarra. Því getum við ekki reynt að læra af henni?