151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í stað þess að veita andsvar við einhverju sem ég sagði í ræðunni býr hv. þingmaður til einhverjar skoðanir um eitthvað allt annað mál. Við þingmenn Miðflokksins höfum eins og aðrir að sjálfsögðu viljað stuðla að sem mestu öryggi þeirra sem eru í neyð. Það sýnir auk þess reynslan. Árið 2015, þegar straumur flóttamanna og annars förufólks jókst gríðarlega, lagði ég til mjög umfangsmiklar aðgerðir til að koma til móts við þá stöðu og þær aðgerðir snerust ekki hvað síst um að auka öryggi fólks á flótta. Ég frábið mér því svona dylgjur eins og hv. þingmaður sýslar oft með. Hins vegar er það alveg ljóst að ef menn vilja ná hámarksöryggi fyrir flóttamenn, segjum til að mynda að Þjóðverjar vildu hámarksöryggi, hvers vegna leyfa þeir þá ekki einfaldlega fólkinu að koma með flugvél? Margt af þessu fólki borgar margfalt meira fyrir að láta smygla sér til landsins en flugmiði kostar. Ég skil hv. þingmann eftir með þessa spurningu.