151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hér mælti þingmaður sem fyrir fáeinum dögum sá ástæðu til að koma í ræðustól og heita sjálfum sér og þjóðinni því að hann ætlaði að tala af yfirvegun og siðsemi í garð annarra. Svo byrjar hann andsvar sitt á því að saka mig um heigulshátt fyrir fram, er heitt í hamsi og ryður út úr sér spurningum. Ég, að því marki sem ég náði að fylgja þræði hjá hv. þingmanni, get huggað hann með því að ég tel að samræming í því að fylgjast með gangi þessara mála og veita upplýsingar sé mjög æskileg. En það sem gjörbreytir eðli þessa máls og þar með Íslandi sem móttökustað hælisleitenda eða flóttamanna er þegar verið er að tryggja fólki sama rétt, sömu kröfur til móttöku samfélagsins og þeir sem það samfélag hefur sérstaklega boðið til sín eiga rétt á. Það er grundvallarbreyting sem er til þess fallin að fjölga mjög umsóknum, ekki hvað síst þeim umsóknum sem kæmust ekki í gegnum hið formlega ferli (Forseti hringir.) með þeim árangri að fólki yrði boðið hingað.