151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku fá sveitarfélög greiðslur frá ríkinu til þess að aðstoða fólk við að læra tungumálið, aðstoða fólk við að koma sér upp húsnæði, aðstoða fólk við að fá atvinnu. Í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku eru veittir styrkir til ákveðins árafjölda til að gera það. Við erum að tala um að gera það í eitt ár í tilraunaskyni á Íslandi. Það er gert í öllum hinum löndunum. Í Noregi er þjónustan við þessa hópa miklu meiri en á Íslandi af því að menn vita hvað gerist ef fólk er ekki aðstoðað við að aðlagast samfélaginu.

Hv. þingmaður blandar saman annars vegar útlendingalögunum og hins vegar því sem lýtur að félagsþjónustu sveitarfélaga, sem aðstoðar einstaklinga við að aðlagast íslensku samfélagi, og fer hér með bull í því samhengi að það dragi að þvílíkan fjölda af umsóknum. Ég bendi hv. þingmanni á að það stenst ekki skoðun. Þá segi ég aftur: Það er ljót pólitík að vilja ekki aðstoða þá einstaklinga sem samfélagið er þegar búið að segja að það ætli að taka á móti, aðstoða þá við að læra íslensku, (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur talað mikið um, við að fá atvinnu, við að koma sér upp húsnæði og annað slíkt. (Forseti hringir.) Verið er að blanda saman ólíkum hlutum hér og hv. þingmaður er mesti snillingurinn af öllum í því.