151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra virðist fyrirmunað að sjá samhengi hlutanna. Eins og ég rakti í ræðu minni hafa ákvarðanir stjórnvalda, ekki hvað síst ákvarðanir um þá þjónustu sem umsækjendur eiga kröfu til, áhrif á hversu margir falast eftir hæli í tilteknum löndum. Það blasir við og dæmin eru allt í kringum okkur. Og talandi um að rugla hlutum saman, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra ruglar líka því að reyna að aðlaga fólk samfélaginu, fólk sem er sest hér að, saman við það að bjóða ákveðin gæði, ákveðna þjónustu, búa til ákveðnar kröfur á móttökusamfélagið. Í Danmörku og í stefnu danskra sósíaldemókrata er, eins og ég nefndi reyndar í ræðu minni, einmitt mikil áhersla á aðlögun að samfélaginu, aðlögun þeirra sem Danir ætla að bjóða til sín. Í hverju felst sú aðlögun? Hún felst m.a. í því að menn séu látnir virða grundvallarreglur (Forseti hringir.) dansks samfélags, virða réttindi kvenna o.s.frv. og auðvitað að læra tungumálið. Ég tel reyndar að ganga eigi lengra í því að ýta undir íslenskufræðslu fyrir þá sem setjast hér að.