151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega af sem áður var þegar hv. þingmaður var hæstv. forsætisráðherra Íslands og tilkynnti um það 19. september 2015 að ríkisstjórn hans myndi setja 1,5 milljarða í fjáraukalög vegna móttöku flóttafólks. Hann hélt aukaríkisstjórnarfund vegna málefna flóttamanna þar sem einnig var gert ráð fyrir að tugir, ef ekki hundruð, milljóna króna yrðu sett í verkefni, alþjóðleg verkefni til að takast á við þann flóttamannavanda sem Evrópa stóð þá frammi fyrir. Hann boðaði til blaðamannafundar af því tilefni þar sem fram komu tillögur ráðherranefndar um málefni flóttamanna og innflytjenda, sem fjallað hafði verið um skömmu áður. Þetta er eitt af því besta sem hv. þingmaður gerði í forsætisráðherratíð sinni. Það væri gott að sjá þessar nálganir hjá hv. þingmanni í málflutningi hans hér, sem því miður hefur breyst og tekið stakkaskiptum og fjallar nú um að snúa út úr málum um að samræma móttöku flóttamanna og blanda saman ólíkum hlutum. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hv. þingmann: Þegar hann talar um að Ísland eigi ekki að taka við fleirum en Ísland ræður við, hver eru mörkin á því í huga (Forseti hringir.) hv. þingmanns hvað Ísland ræður við? Er það siðferðislega, fjárhagslega, eða hvað er það nákvæmlega sem ræður þeim mörkum?