151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:01]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan sem ég deili skoðun hans á og það er að samkomulag ESB við Tyrki, sem snerist um það að halda um 3 milljónum flóttamanna frá Sýrlandi innan Tyrklands, hafi verið í hæsta máta vont.

Ég myndi gjarnan vilja fá skýrari svör frá hv. þingmanni um svokallaða „push-back policy“, sem hefur verið harðlega gagnrýnd, að Evrópusambandið hafi ýtt frá sér flóttamönnum, ýtt þeim vanda yfir á Tyrkland, ýtt þeim vanda yfir á Líbíu. Þessi „push-back policy“, ef ég leyfi mér að sletta, hæstv. forseti, hefur verið harðlega gagnrýnd af hálfu Evrópuráðsins, af hálfu mannréttindastofnana og ESB er farið að snúa af þeirri leið. En ég vil gjarnan fá það fram frá hv. þingmanni hvort hann telji (Forseti hringir.) að hin svokallaða „push-back policy“, með leyfi forseta, sé það sem Ísland eigi að taka upp hér þegar önnur lönd eru að víkja af þeirri leið vegna harðrar gagnrýni (Forseti hringir.) sem ESB hefur fengið á sig vegna þess.