151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til 1. umr., frumvarp sem fjallar um breytingar á lögum um málefni innflytjenda, móttöku flóttafólks og innflytjendaráð. Þetta er mikilvægt frumvarp og fjallar um þegna samfélagsins sem eru annaðhvort að koma til landsins eða eru þegar orðnir hluti af samfélaginu og hvernig við getum staðið sem best að þjónustu við þá sem ekki þekkja kima samfélagsins. Þetta er hluti af mikilvægri umræðu sem við þurfum að taka í samfélaginu með opnum hug, fordómalaust og af skilningi og mannúð. Eins og við þekkjum hefur talsverð umræða verið um það á undanförnum misserum hvernig við getum bætt stofnanaumgjörð innflytjendamála, m.a. með endurskoðun á hlutverki og nálgun Útlendingastofnunar. Hér í þinginu hefur á undangengnum misserum farið fram krefjandi og brýn umræða um hin sérstöku lög um útlendinga og ýmis réttindi þeirra frá árinu 2016 en í því frumvarpi sem hefur verið til umfjöllunar er að finna mjög umdeild, alvarleg og umhugsunarverð ágreiningsatriði.

Eftir því sem næst verður komist áformaði hæstv. dómsmálaráðherra að mæla enn á ný fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um útlendinga fyrir lok janúar síðastliðins en ljóst er að töf verður á því. Þetta kom fram í endurskoðaðri þingmálaskrá. Vonandi boðar töf eitthvað gott. Þetta er stórt og viðamikið mál sem þarf að fá þinglega umfjöllun. Lögin um útlendinga þurfa að fá lyktir hér með sæmd og framsýni og ábyrgð en ekki síst að virðing fyrir aðstæðum og lífi hjá bágstöddu og umkomulausu fólki sé viðurkennd. Á það hefur skort stórkostlega í því frumvarpi sem við höfum séð til þessa. Yfirlýst markmið dómsmálaráðherra með framlagningu frumvarpsins, sem er nánast það sama og annað sem lagt var fram fyrir nokkrum misserum, er að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna, að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma til hagsbóta fyrir umsækjendur sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi. En sporin hræða sannarlega, herra forseti. Ástæða er til að fagna öllum jákvæðum skrefum og fagna þrátt fyrir allt því frumvarpi sem við fjöllum um hér í dag og hvetja til þess að það fái brautargengi og rugla því ekki við umræðuna og láta ekki afvegaleiðast þótt hér séu öfl sem vilja grauta saman ólíkum þáttum. Það örlar á fordómum svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Við skulum hafa það hugfast að við erum ekki að fjalla um fámennan hóp. Innflytjendur eru hátt í 50.000 á Íslandi og yfir 14% af mannfjölda í landinu.

Í þessu frumvarpi er rauði þráðurinn sá að styrkja Fjölmenningarsetur, þá stofnun sem á að vera stjórnvöldum til halds og trausts varðandi aðlögun innflytjenda og öryggi þeirra í samfélagi okkar. Fjölmenningarsetur tók til starfa um mitt ár 2001. Það er talsverð reynsla þar inni fólgin. Hlutverkið var fest í lög árið 2012, þ.e. að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru á Íslandi með öllu mögulegu móti, að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda, miðla upplýsingum til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur — þetta eru dæmi um hlutverk — og fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, m.a. með upplýsingaöflun, rannsóknum, greiningu og upplýsingamiðlun. Þetta eru allt saman góð og gild markmið. Síðan er eitt af hlutverkunum líka að koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu, óháð þjóðerni og uppruna. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er nánar verið að tilgreina og sundurliða margvísleg verkefni og hvernig þau verði unnin svo að hagur og velferð skjólstæðinganna sé sem best tryggð, af hvaða ástæðum viðkomandi eru orðnir þegnar í íslensku samfélagi.

Hjá Fjölmenningarsetri, sem staðsett er á Ísafirði, hefur verið hægt að leita eftir upplýsingum um margt er varðar daglegt líf á Íslandi, stjórnsýsluna, og leita eftir aðstoð varðandi flutning til og frá Íslandi. Það verður að segjast eins og er að þessi stofnun hefur svo sem aldrei fengið að taka á flug. Fjársvelti hefur valdið því að langmestu leyti. Þetta frumvarp felur í sér þá meginbreytingu að Fjölmenningarsetri er nú ætlað víðtækara hlutverk með tilkomu samræmdrar móttöku flóttafólks og því er mikilvægt að efla stofnunina þannig að hún geti tekist á við þetta verkefni. Gríðarlega mikilvægt er að fjárhagsleg umgjörð verði bætt. Hin nýju verkefni eru lögfest og þar með tryggðar heimildir til að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þetta frumvarp miðar að því að samræma og bæta það viðmót sem bíður innflytjenda á Íslandi, óháð því af hvaða ástæðum þeir flytjast hingað. Þetta er mikilvægt atriði. Hér þurfa allir aðilar að ganga í takt. Með góðri upplýsingamiðlun og fræðslu er hugsunin sú að innflytjendur séu boðnir velkomnir til Íslands. Slík miðlun gagnast líka til að kynna Ísland vítt og breitt um þjóðir og lönd. Fulltrúar Fjölmenningarseturs munu þurfa að hitta viðkomandi flóttafólk og leggja fyrir það tilboð um móttöku sveitarfélaga. Því er nauðsynlegt að þessi stofnun, sem hefur höfuðstöðvar sínar á Ísafirði eins og fyrr er getið um og er ágætis staðsetning, verði einnig með starfsstöðvar víðar, það er mín skoðun, t.d. á höfuðborgarsvæðinu þar sem t.d. nær allir sem sækja um alþjóðlega vernd búa. Þeir búa á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Fjölmenningarsetur ætti að mínu áliti að vera með starfsemi eða fulltrúa víðar á landinu þar sem kannski stórir hópar innflytjenda eru búsettir til langframa eða tímabundið. Þetta mætti raungerast í samstarfi við Vinnumálastofnun sem hefur ýmsum verkefnum að sinna.

Svo má auðvitað geta um það að á dögunum var stofnuð ráðgjafarstofa innflytjenda, eins og kom fram í andsvari áðan, og er í samræmi við ályktun Alþingis frá 149. þingi. Ekki er annað hægt en að gleðjast yfir því að verið sé að styrkja umgjörðina um þjónustu við innflytjendur sem þurfa á því að halda til þess að geta verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Það er að vísu skoðun mín að nær hefði verið að efla og styrkja þessa þjónustu í Reykjavík á forsendum Fjölmenningarseturs, að það víkkaði út starfsemi sína. Það hefði orðið markvissari vinna og við hefðum kannski farið jafn vel með fjármuni með þeim hætti. En kannski er þetta afbragðshugmynd og af þessu munum við fá reynslu. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er hér um tilraunaverkefni að ræða og ekki verður annað séð en að þessi ráðgjafarstofa muni hafa á hendi sinni nokkuð af svipuðum verkefnum og Fjölmenningarsetur hefur verið að fjalla um. Í umræðunni sem fylgdi framlagningu málsins á 149. þingi lagði ég mikla áherslu á þá skoðun mína að í starfi Fjölmenningarseturs fælist mikil reynsla og mjög mikilvægt væri að nýta sér þá þekkingu sem þar væri geymd og uppsöfnuð og hún mætti ekki fara forgörðum, að hana þyrfti að styrkja jafnhliða og samhliða og ekki væri brýn þörf á að stofna enn eina nýja opinbera stofnun, eins og ég hef fyrr nefnt. En ég gleðst engu að síður og styð auðvitað þetta reynsluverkefni og árna starfsmönnum þar og stofnuninni allra heilla í verkefnum sínum.

Herra forseti. Þetta frumvarp sem við erum með til umfjöllunar kallast auðvitað á við þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, sem samþykkt var hér samhljóða fyrir tæpu ári. Hvað þýðir það? Það þýðir að mótuð verði innflytjendastefna. Sú stefna er því miður ekki til á Íslandi. Við erum eina Norðurlandaþjóðin sem býr ekki að traustri umgjörð, traustri innflytjendastefnu, að þessu leyti. Ég veit ekki til þess að nokkurt Evrópuríki hafi ekki slíka stefnu í handraðanum. Brýnt er að þetta verði gert og ég vænti þess að viðkomandi ráðuneyti, fleiri en eitt, séu að vinna að þessari stefnu og leggi fyrir Alþingi í samræmi við þá ályktun sem samþykkt var hér á liðnu þingi.

Herra forseti. Þessu frumvarpi er í heildina tekið fagnandi, sérstaklega þeim ákvæðum sem lúta að eflingu Fjölmenningarseturs og að því sé falið víðtækara hlutverk. Það er auðvitað gert með þeim fyrirvara og í þeirri vissu að þessari merkilegu stofnun, Fjölmenningarsetri, verði gert kleift að eflast og dafna, ekki bara á einum stað heldur í samstarfi margra á fleiri landsvæðum. Það verður fróðlegt og spennandi að fá að fylgjast með umræðu og meðferð þessa máls í hv. velferðarnefnd og sjá það vonandi verða að lögum á þessu þingi. Jafnframt á sá sem hér stendur þá ósk heitasta að umræðan verði upplýst, hún mótist af mannúð og skilningi en ekki af fordómum og skrumskælingum. En það virðist þó vera nokkurt framboð á því eins og við höfum þegar heyrt það sem af er umræðu dagsins.