Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:34]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og segja að ég deili að hluta skoðunum hv. þingmanns þegar kemur að umræðu um að samfélagið hér megi ekki taka við meiri fjölda en við erum tilbúin til, við getum og við ráðum við að aðstoða við að aðlagast íslensku samfélagi. Og áður en ég fer lengra vil ég segja það líka að umræður hjá hv. þingmanni um fjármögnun á þessu frumvarpi eru á ákveðnum villigötum vegna þess að þetta frumvarp snýr bara að Fjölmenningarsetri og því fjármagni sem þarf að bæta þar inn.

Annað sem lýtur að umgjörð þessara mála er fyrir að finna fjármagnað í fjármálaáætlunum og fjárlögum yfirstandandi árs. Við erum þegar byrjuð að vinna eftir þessu. Búið er að gera tilraunasamning við þrjú sveitarfélög. Þetta snýst um gera vinnuna sem lýtur að þessum málum skilvirkari og að Fjölmenningarsetrið fái þar ákveðið hlutverk. Ég vil segja það líka að verulegur hluti af þeim kostnaði — eða fjárfestingu vegna þess að einstaklingar sem þegar eru komnir hingað inn í landið og við aðstoðum við að læra íslensku eru einfaldlega fjárfesting sem skilar sér til lengri tíma litið — verulegur hluti af þeim kostnaði hefur þegar verið greiddur og hefur verið það meira og minna frá árinu 1991 í gegnum lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það sem ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann: Er hann virkilega þeirrar skoðunar að flóttamenn sem eru komnir með stöðu í landinu eigi ekki að fá sömu þjónustu og aðstoð við að aðlagast íslensku samfélagi, óháð því með hvaða hætti þeir komu inn í landið? Númer eitt. Og númer tvö: Er hv. þingmaður á því að það sé óskynsamleg fjárfesting að kenna þessu fólki íslensku, (Forseti hringir.) að það sé óskynsamleg fjárfesting að kenna þessu fólki samfélagsfræði og hvernig íslenska samfélagið er upp byggt, að það sé óskynsamleg ráðstöfun (Forseti hringir.) að þjónusta það með ákveðnum hætti, með nákvæmlega sama hætti (Forseti hringir.) og öll hin Norðurlöndin eru að gera?