151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir einu í ræðu hv. þingmanns, reyndar nokkrum hlutum sem ég ætla að fara aðeins betur yfir í ræðu á eftir. Hann sagðist bera virðingu fyrir því að fólk leiti sér að betri lífskjörum. Ég er nefnilega sama sinnis. Ég ber virðingu fyrir því og mér finnst gott að fólk reyni það. Ég hef sjálfur verið útlendingur í tveimur útlöndum og veit hvernig það er, alla vega á þeim stöðum og þrátt fyrir að ég sé í ýmiss konar forréttindastöðu þá var það samt mjög erfitt. Jafnvel í góðum kerfum er erfitt að vera útlendingur, til að byrja með. Það er ekki ríkinu endilega að kenna, menningin er ólík og maður skilur ekki endilega húmorinn, hefur ekki endilega menningarlegan bakgrunn eða hvað þá tungumálið. En óháð því ber ég virðingu fyrir því og finnst æskilegt að fólk prófi eitthvað í lífinu, flytjist á milli landa í leit að betri lífskjörum eða hreinlega af forvitni.

Það sem vekur athygli mína er að þegar kemur að umræðu um útlendingamál þá virðist sú virðing, sem hv. þingmaður segist bera fyrir þessu, ekki skína mjög skært. Sést það kannski best í málefnum hælisleitenda sem koma hingað. Sumir vilja meina að það sé til að leita að betri lífsgæðum og sá málflutningur, sú ásökun að þetta sé bara fólk að leita að betri lífsgæðum og eigi ekkert heima í hæliskerfinu, er notaður sem ástæða til þess að segja nei við fólk til að fá dvöl á landinu yfir höfuð. Það er nefnilega ekkert almennt dvalarleyfi til í íslenskum lögum. Einhver sem býr í Albaníu eða Georgíu og vill koma hingað og vinna, borga skatta og vera bara frábær Íslendingur í alla staði, má það ekki. Það er engin leið. Meginreglan er sú að þú mátt ekki vera á landinu nema þú sért frá EES-landi. Svo eru undantekningar sem fólk þarf að tikka í.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, þar sem hann segist bera virðingu fyrir því að fólk leiti sér betri lífskjara: Myndi hv. þingmaður styðja breytingu á útlendingalögum sem myndi (Forseti hringir.) gera það mögulegt? Auðvitað með einhverjum skilyrðum, en gera það mögulegt og auðveldara fyrir fólk (Forseti hringir.) að flytja hingað til þess að leita að betri lífskjörum.