151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Myndi ég styðja það að hér gæti fólk fengið að koma í leit að betri lífskjörum sem hælisleitendur? Nei, ég myndi ekki styðja það. (Gripið fram í.) Sem hælisleitendur. Ég myndi ekki styðja það vegna þess að við myndum aldrei ráða við það. Við myndum aldrei ráða við það ef við ætluðum að taka á móti fólki sem er í leit að betri lífskjörum. Það eru ekki lögmætar ástæður. Það er nákvæmlega það sama á Norðurlöndunum og annars staðar. Þetta eru ekki lögmætar ástæður til að fá hæli í leit að betri lífskjörum eins og ég ber mikla virðingu fyrir því. Fólk er að reyna að bæta sinn hag. Það er bara þannig. En við getum ekki tekið á móti öllum, því miður, það er bara þannig. Það væri óskandi í þeim ríkjum þar sem lífskjör eru svo slæm, m.a. vegna spillingar sem dæmi, að menn gætu tekið á vandanum á heimaslóðum og lífskjörin væri þá betri þar, fólk þyrfti ekki að fara um langan veg og hættulegan í leit að betri lífskjörum. Þetta er því miður það sem blasir við.

Svo er annað í þessu samhengi sem er rétt kannski að tala um líka þegar kemur að flóttamannavandanum yfir höfuð og orsökum hans. Við horfum upp á t.d. í Afganistan að ábyrgð Bandaríkjamanna er heilmikil þar. Þaðan koma fjölmargir flóttamenn, stærsti hópurinn sem kom til Evrópu á síðasta ári var frá Afganistan, minnir mig. Í Grikklandi er þetta stærsti hópurinn. Tökum sem dæmi stríðið í Sýrlandi. Hverjir bera ábyrgð á því? Stríðið í Jemen? Er ekki Sádi-Arabía þar gerandi? Þessi lönd eiga náttúrlega að axla ábyrgð. Ég hugsa að hægt sé að telja það á fingrum annarrar handar hvað Sádi-Arabía tekur á móti mörgum hælisleitendum. (HHG: Er það til eftirbreytni?) Ég er að nefna dæmi, hv. þingmaður. Það á náttúrlega að benda á þessa hluti líka, hverjir bera ábyrgðina.