151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem hægt að halda langar ræður um það að stór hluti fólks í heimsbyggðinni leitar sér að betri lífskjörum. Einstaklingar innan Evrópska efnahagssvæðisins geta komið hingað og leitað sér að vinnu (Gripið fram í.)og við höfum notið góðs af því, (HHG: Einmitt.) vissulega. Hér hefur komið duglegt verkafólk sem hefur skipt okkur miklu máli, sérstaklega í uppsveiflu í byggingariðnaðinum og öðru slíku, þannig að maður gleðst að sjálfsögðu yfir því. En svona er kerfið sett saman og þetta er mannanna verk. En niðurstaðan er klár. Það er því miður verið að misnota þetta kerfi sem við þekkjum og það er svo sem margt annað sem er misnotað þegar kerfi eru annars vegar, opinbera kerfið, almannatryggingakerfi og annað slíkt (Forseti hringir.) og því fylgir allt saman kostnaður. Ég er talsmaður þess að reyna að draga úr þessari misnotkun og (Forseti hringir.) nýta þennan pening til að hjálpa þeim sem virkilega þurfa þess. (Forseti hringir.) Ég er t.d. fylgjandi því að hækka framlög til þróunarsamvinnu (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður hefur áhuga á að vita það.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)