151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem kemur fram kemur í málflutningi hv. þm. Birgis Þórarinssonar gerir mig svolítið dapra, að verið sé að rugla saman nokkrum hlutum. Í því máli sem við ræðum hér er ekki verið að yfirfæra réttindi kvótafólks yfir á aðra hópa flóttafólks, heldur er verið að samræma móttöku sveitarfélaga, sem hefur verið vandamál hingað til. Það hefur verið vandamál að ekki hefur verið nógu mikil samræmd upplýsingagjöf eða ráðgjöf til fólks.

Ég heyri alveg á málflutningi þingmannsins að hann hefur áhyggjur af kostnaðinum. En mig langar til að vita hvort hv. þingmanni finnist að við eigum ekki að styrkja upplýsingagjöf, styrkja leiðbeiningar og ráðgjöf til sveitarfélaganna til þess að samræma móttöku fólks á flótta. Það virðist vera að alla vega Reykjanesbær sé tilbúinn í það að samræma þessa upplýsingagjöf og ráðgjöf til flóttafólks vegna þess að Reykjanesbær var fyrsta sveitarfélagið sem skrifaði undir samkomulag við félagsmálaráðuneytið fyrir nokkrum dögum, þann 11. febrúar sl., um að vera partur af þessu samræmda móttökukerfi sveitarfélaganna.

Þannig að ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé örlítið á skjön við það sem er að gerast og við vilja sveitarfélagsins í Reykjanesbæ. Það er greinilegur vilji sveitarfélagsins að taka þátt í þessu verkefni. En ég velti fyrir mér hvort það sé raunverulegur vilji hv. þingmanns að efla ekki og samræma upplýsingagjöf til þessa viðkvæma hóps. Er það virkilega svo, herra forseti?