151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi aðeins misskilið ræðu mína hér áðan. Ég er alveg sannarlega fylgjandi því að upplýsingagjöf sé samræmd, öll upplýsingagjöf er af hinu góða. Ég tek heils hugar undir það. Og ef þetta frumvarp kostar bara 24 milljónir þá hef ég engar áhyggjur af því. En málið er að það er þjónustan sem verið er að tala um og skilaboðin sem í því felast eru að ekki liggur fyrir hvað þetta kemur til með að kosta. Hér veitum við nákvæmlega sömu þjónustu og við veitum kvótaflóttamönnum, við höfum gert það vel og ég styð það.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við eigum að leggja áherslu á að fá hingað kristna flóttamenn vegna þess að þeir eru ofsóttustu flóttamennirnir í heiminum. En ég veit til þess að meiri hluti þeirra sem koma hingað sem flóttamenn er ekki kristinn, sem dæmi. Það er nokkuð sem við ættum að laga. Ég vil hvetja hæstv. félagsmálaráðherra, vegna þess að hann hefur stórt hjarta fyrir þessum málaflokki, að beita sér sérstaklega fyrir því að við tökum á móti kristnum flóttamönnum vegna þess að þeir eru ofsóttir. Og það eru öll gögn sem sýna það að þeir eru ofsóttustu flóttamennirnir í heiminum.

En varðandi þetta frumvarp og þessa samræmdu upplýsingagjöf þá er hún af hinu góða, hv. þingmaður, og hér gætir einhvers misskilnings um að ég sé á móti því. En hins vegar, eins og ég segi enn og aftur, er það kostnaðarþátturinn og skilaboðin sem felast í þessu frumvarpi: Þetta mun þýða aukinn kostnað. Það sjá það allir nema hæstv. félagsmálaráðherra.