151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:54]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni er tíðrætt um kostnað og peninga enda situr hann í fjárlaganefnd Alþingis og hefur áhyggjur af ríkissjóði og stöðu hans, sem ég hef samúð með og styð hann í því. En það er líka þannig að sumt er ekki metið til fjár og það er mannúðin. Hv. þingmanni varð hér tíðrætt áðan um flóttamannabúðir. Ég veit að hann hefur persónulega reynslu af því að koma í flóttamannabúðir og sjálf hef ég líka, sem varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins, kom í nokkrar flóttamannabúðir. Þær eru neyðarúrræði og þar sem enginn vill ílengjast. Þær eru ekki staður eða úrræði sem við eigum að styrkja þótt vissulega eigum við að vera á báðum frontum. Við eigum að taka vel á móti flóttamönnum, og við erum með góða þjónustu hér á landi gagnvart því fólki sem er á flótta og leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd, en sömuleiðis eigum við að styrkja þau alþjóðlegu verkefni sem hjálpa fólki til að vera heima hjá sér, (Forseti hringir.) því að allir vilja vera heima hjá sér.

En velti fyrir mér, ég átti ekki auðvelt með að skilja orð hv. þingmanns (Forseti hringir.) um flóttamannabúðirnar, hvort hann vilji að við styrkjum við flóttamannabúðirnar, vegna þess að þær eru neyðarúrræði. Hv. þingmaður talaði um kristna flóttamenn (Forseti hringir.) og ég vil líka ítreka, vegna þess að hv. þingmanni er tíðrætt um kristin gildi, að þjóðkirkja Íslands hefur stigið mjög fast niður fæti þegar kemur að málefnum flóttamanna (Forseti hringir.) og tekið mjög aðdáunarverða afstöðu með fólki á flótta. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki sammála þjóðkirkjunni í þeirri áherslu.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk.)