151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er á því að við eigum að styrkja stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem reka þessar flóttamannabúðir og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem dæmi, flóttamannastofnun fyrir Palestínumenn. Við eigum að styrkja þessar stofnanir vegna þess að þær hafa gert mjög góða hluti, virkilega góða hluti sem allt of lítið er talað um. Þessar flóttamannabúðir mættu vissulega vera betri, en þær eru ekki alslæmar, t.d. er aðbúnaður í skólum ágætur. Þó að það séu mörg börn, upp undir 50 börn í kennslustofum á Gasa er aðbúnaðurinn góður og hreinlæti og annað slíkt. Allt slíkt er til staðar, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið. Það að kostar eitthvað að reka þetta allt saman. Við leysum ekki þann vanda sem er þar, að fólk skuli hafa þurft að búa í þessum flóttamannabúðum áratugum saman, því miður.

Vissulega vildi ég að við myndum eiga einhvern þátt í því að reyna að leysa þann vanda. En svona er staðan og þarna getum við nýtt fjármuni okkar. Við hefðum getað hjálpað 7.572 einstaklingum í þessum flóttamannabúðum fyrir þann pening sem við settum í kerfið hér heima fyrir 631 einstakling.