151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að þó að þetta frumvarp hæstv. ráðherra sé út af fyrir sig afmarkað gefur það tilefni til að ræða þessi málefni í svolítið víðara samhengi. Ég leyfi mér að leggja út af því þannig hér í upphafi þessarar umræðu, að lokinni framsögu hæstv. ráðherra, að hvergi á Norðurlöndunum eru jafn margar umsóknir um alþjóðlega vernd og hér á landi sé miðað við höfðatölu. Útlendingastofnun hefur birt upplýsingar um fjölda þeirra sem sækja um vernd hér á landi og hlutfallslega eru sexfalt fleiri sem sækja hér um heldur en í Noregi og Danmörku, sexfalt, þrefalt fleiri en í Finnlandi og meira að segja 50% fleiri en í Svíþjóð. Ég leyfi mér að álykta af þessum tölum, hæstv. forseti, að þetta móttökukerfi okkar sé í raun sprungið. Ég tel að þessar tölur, svo grjótharðar og skýrar sem þær eru, renni stoðum undir þá ályktun. Síðan dró ég sömuleiðis þá ályktun að við værum orðin viðskila við nágranna okkar á Norðurlöndum og þá a.m.k. í Danmörku og Noregi. Ég ætla að nota ræðutíma minn hér til að rökstyðja það.

Ég vil samt byrja á því að segja að við erum að tala um viðkvæmt málefni sem þarf auðvitað að fjalla um sem slíkt af virðingu. Ég hefði helst kosið að hægt væri að gera það án upphrópana og án þess að mönnum væru gerðar upp skoðanir eða dylgjað um hvað mönnum gengur til, eins og stundum heyrist. En ég held að enginn ágreiningur sé um að við viljum sem þjóð leggja okkar af mörkum gagnvart hinum geigvænlega flóttamannavanda sem reis í heiminum, ekki síst eftir hið arabíska vor sem kallað var. Spurningin í mínum huga er ósköp einföld: Hvernig verður það best gert? Hvernig getum við notað það fé sem er til ráðstöfunar með sem hagkvæmustum hætti í þeim skilningi að það gagnist sem best og nýtist sem flestum? Þá vil ég bæta við: Og ekki síst konum og börnum.

Herra forseti. Ég ætla að víkja að stefnumótun í nágrannalöndum okkar og byrja á Danmörku. Þannig er að danski jafnaðarmannaflokkurinn fer fyrir ríkisstjórn í Danmörku og hann gaf út stefnuskrá fyrir þingkosningarnar 2019. Þessi stefnuskrá ber yfirskrift sem mætti þýða sem Sanngjörn og raunhæf. Hún lítur svona út, herra forseti, [Þingmaður sýnir mynd.] með mynd af formanni danska jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra Dana sem nú er. Undirfyrirsögn þessa plaggs er heildaráætlun um danska útlendingastefnu. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þetta rit á danskri tungu, með leyfi forseta. Þetta rit heitir Retfærdig og realistisk – helhedsplan for dansk udlændingepolitik. Þarna er mjög mikið efni á einum 14 blaðsíðum. Ég ætla bara að gefa mynd af þessu riti sem ég vona að sem flestir kynni sér. Það eru þrjú aðal kaflaheiti og svo eru undirkaflar. Einn aðalkaflinn heitir Fjöldinn hefur þýðingu. Þetta er bara þýðing mín, herra forseti. Annar meginkafli er: Við viljum hjálpa fleirum. Þriðji kaflinn ber yfirskriftina: Hin nýja sjálfstæðisbarátta. Á danskri tungu: Den nye frihedskamp. Þarna er víða komið við en það sem ber hæst er að jafnaðarmannaflokkurinn hafnar afdráttarlaust gildandi stefnu í málaflokknum, þ.e. þeirri stefnu sem áður ríkti, með því að segja að hún valdi alvarlegu óréttlæti þar sem fólk á flótta setji sig í lífshættu og þar sem menn af misjöfnu sauðahúsi hagnist um milljarða á ógæfu annarra. Í þessu ljósi setur flokkurinn fram aðalstefnumál sitt í málaflokknum, að sett verði á laggirnar móttökustöð utan Evrópu.

Í þeirri stefnuyfirlýsingu sem ég hef hér fyrir framan mig er bent á að á árunum 2016–2018 hafi 10.000 börn, konur og karlar farist eða týnst í Miðjarðarhafinu. Segir í ritinu að hér sé á ferð mannlegur harmleikur og flokkurinn óski eftir réttlátara hælisleitendakerfi. Þetta er útfært með þeim hætti að danski jafnaðarmannaflokkurinn segir að Danmörk, helst í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, eigi að setja á laggirnar móttökustöð utan Evrópu. Segir í framhaldinu að Danmörk muni taka við ákveðnum fjölda kvótaflóttamanna á grundvelli samstarfs við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þannig fáist stjórn á hve mörgum flóttamönnum sé hjálpað í Danmörku. Áfram segir að slík móttökumiðstöð sem þarna er gerð að megintillögu geti stuðlað að því að stöðva hinn lífshættulega, áhættusama og stjórnlausa flótta yfir Miðjarðarhafið. Það eyði viðskiptatækifærum smyglara með fólk og þýði að færri flóttamenn og förufólk eigi á hættu áreiti og árásir á för sinni.

Þá ætla ég, herra forseti, að vitna til stefnuræðu danska forsætisráðherrans í danska þjóðþinginu 6. október sl. þar sem hún fjallaði m.a. um málefni hælisleitenda. Forsætisráðherra sagði útlendingastefnu fortíðar vera mistök. Mistök. Ríkisstjórnin myndi halda áfram strangri stefnu en meira þyrfti að koma til. Hún bætti við: Evrópska hælisleitendakerfið er í raun hrunið. Þetta eru orð Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, í danska þjóðþinginu 6. október sl. Evrópska hælisleitendakerfið er hrunið. Hún bætti við, og þýðingin er að sjálfsögðu lauslega mín: Verum hreinskilin. Möguleikinn á hæli er oft kominn undir því að flóttamaður greiði fólkssmyglara og vilji hætta lífinu í yfirfullum gúmmíbát. Miðjarðarhafið er orðið kirkjugarður. Enn fremur sagði hún: Enginn flýr að gamni sínu. Eins og komið er bregðumst við bæði þeim sem flýja með milligöngu smyglara og þeim sem eftir sitja og hafa mesta þörf fyrir hjálp.

Herra forseti. Þessi orð vega þungt í mínum huga. Það verður að beina aðstoðinni að þeim sem mesta þörf hafa fyrir hana og það má ekki haga málum með þeim hætti að óvandaðir menn geti fært sér í nyt og gert sér að gróðaefni að hafa af fólki stórfé, kannski aleiguna, fyrir það að vísa þeim um borð í manndrápsfley og í háskaför. Hún segir í ræðu sinni: Við viljum meðhöndla hælisumsóknir utan Danmerkur í þriðju löndum sem geta veitt öryggi þeim sem þurfa á vernd að halda. Og hún bætti við að frá sínum bæjardyrum væri þetta eina raunhæfa framtíðarlausnin. Þá vil ég geta þess að í þessu stefnuriti danska jafnaðarmannaflokksins er vísað til þess að æðstu menn Evrópusambandsins hafi á fundi sínum 28. júní 2018 fjallað um málefnið. Þar segir áfram að þýska ríkisstjórnin hafi áform um að setja á laggirnar slíka stöð í Norður-Afríku og sama eigi við um Frakkland sem hafi áform um slíka stöð í Afríku.

Þá vil ég víkja næst að stefnu norskra stjórnvalda en stjórnarsáttmáli norsku ríkisstjórnarinnar er dagsettur 17. janúar 2019. Þar er að finna ítarlegan kafla um innflytjendamál og ekki síst málefni hælisleitenda. Þar segir að sjá megi áskoranir sem tengjast aðlögun — náttúrlega hið klassíska umræðuefni. Fólksflutningar reyni á norskt samfélag og það eigi ekki síst við um sjálfbærni norska velferðarríkisins. Þarna má heyra sams konar tón og heyrist frá Danmörku, að velferðarkerfinu sé talið ógnað vegna þessara fólksflutninga. Norska velferðarsamfélagið standi frammi fyrir tímabili með vaxandi hlutdeild eldri borgara og minna efnahagslegu svigrúmi. Mikill innflutningur fólks verði viðbótaráskorun í þessu ljósi. Því sé nauðsynlegt að herða reglur um innflytjendamál, segir í stjórnarsáttmála norsku ríkisstjórnarinnar. Noregur muni beita sér fyrir því að finna góðar lausnir fyrir flóttamenn heimsins með hjálp á heimaslóð, í flóttamannabúðum náttúrlega og með því að taka á móti kvótaflóttamönnum. Áfram segir í stjórnarsáttmála norsku ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin áformi að tengja Noreg með sterkari hætti við evrópsk ferli um sameiginlegt evrópskt kerfi sem getur falið í sér stofnun sameiginlegra hælismiðstöðva utan Evrópusambandsins og eflingu ytri landamæra Schengen-landanna.

Það er því mikill samhljómur í þessari stefnumörkun sem ég hef vitnað hér til, annars vegar í Danmörku og hins vegar í Noregi og með vísan til frumheimilda um þessi mál sem eru stefnuyfirlýsing danska jafnaðarmannaflokksins, ríkisstjórnarflokksins, ræða danska forsætisráðherrans í þjóðþinginu og stjórnarsáttmáli norsku ríkisstjórnarinnar. Sú stefna sem hér er fylgt er náttúrlega, eins og hv. þm. Guðjón Brjánsson vék að í ræðu sinni, kannski ekki skráð en hún birtist í framkvæmdinni og framkvæmdin er þessi: Það eru sexfalt fleiri hælisleitendur hér heldur en í Danmörku og Noregi, þrefalt fleiri en í Finnlandi og 50% fleiri en í Svíþjóð. Þannig að þarna má kannski segja að stefnan birtist. Þá erum við komin að því, herra forseti, að við erum í einhverjum skilningi að fylgja stefnu sem aðrir hafa aflagt og sem danski forsætisráðherrann lýsir sem mistökum.

Herra forseti. Við hljótum að geta gert betur. Við viljum leggja okkar af mörkum til að leggja fólki lið sem er í nauðum statt. Það er augljóst mál að við verðum að gera betur en nú er. Við megum ekki við því að sóa fé með þeim hætti sem raun ber vitni. Og eins og Mette Frederiksen segir megum við ekki bregðast fólki, eins og hún lýsir, bæði þeim sem leggja á sig þessa háskaför og farast margir og svo hinum sem eftir sitja og ættu að njóta hjálpar okkar en fá hana ekki.