151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum verið að ræða hér frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra um samræmda móttöku fólks á flótta en það er ein af helstu tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks sem skipuð var af hæstv. ráðherra í mars 2017 en nefndin skilaði af sér tillögum í janúar 2019.

Hlutverk nefndarinnar um samræmda móttöku flóttafólks var að gera tillögu um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk, óháð því hvernig fólk kemur til landsins, huga að þætti sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og tengslum milli stjórnsýslustofnana og taka til athugunar fræðslu fyrir starfsfólk ríkis og sveitarfélaga sem kemur að móttöku flóttafólks.

Í skýrslu nefndarinnar, sem kom út í janúar 2019 og nefnist Samræmd móttaka flóttafólks, var m.a. lagt til að hlutverk Fjölmenningarseturs við móttöku flóttafólks yrði aukið og að stofnunin annaðist mestan hluta skipulags- og fræðslumála vegna komu flóttafólks. Með nýju samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk og því hlutverki sem Fjölmenningarsetrinu er ætlað í framkvæmd hennar þykir nauðsynlegt að lögfesta hin nýju verkefni stofnunarinnar og tryggja um leið heimild hennar til að vinna með persónuupplýsingar.

Ég fagna þessu frumvarpi hæstv. ráðherra þó að ég hefði viljað sjá það koma fram miklu fyrr og ég hefði líka viljað sjá að það fengi afgreiðslu á 150. löggjafarþingi, enda er Fjölmenningarsetri ætlað að veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku flóttafólks. Samkvæmt þessu ágæta frumvarpi býður Fjölmenningarsetur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag, flóttafólki og einstaklingum sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða að setjast að í tilteknu móttökusveitarfélagi á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja. Fjölmenningarsetur veitir flóttafólki sem ákveður að þiggja ekki boð um búsetu í móttökusveitarfélagi upplýsingar um almenna þjónustu sveitarfélaga og setrið skal halda utan um og standa fyrir samráði milli þeirra aðila sem koma að móttöku flóttafólks á Íslandi. Eftir öllu þessu hefur verið kallað undanfarin ár, þ.e. samræmingu milli þeirra aðila sem standa að og koma að móttöku þeirra sem til okkar leita eftir alþjóðlegri vernd, óháð því hvers konar alþjóðlegri vernd viðkomandi óskar eftir. Það er ljóst að mikil og rík þörf er á því að ríki og sveitarfélög tryggi fólki sem leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd jafna og samfellda þjónustu. Undir þetta tek ég í frumvarpi hæstv. ráðherra og löngu kominn tími til.

Ég vil líka vekja athygli á því að frumvarpið felur í sér þá meginbreytingu, sem ég minntist aðeins á hér áðan, að Fjölmenningarsetri er ætlað víðtækara hlutverk með tilkomu samræmdrar móttöku. Það hefur verið rætt hér að það hefur svolítið verið togast á um þessa þjónustu á milli landshluta, á milli kjördæma. Ég vil, herra forseti, beina okkur inn á þær brautir að við þurfum ekki að togast á um hvar nákvæmlega þetta setur á vera heldur um hvers konar þjónustu við veitum þeim viðkvæma hópi sem til okkar leitar. Það er minnst á það í frumvarpi hæstv. ráðherra að stofnunin, sem nú er staðsett á Ísafirði, verði einnig með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því vegna þess að langflestir sem hingað koma á flótta koma á höfuðborgarsvæðið eða til Suðurnesja. Það er gleðilegt að Reykjanesbær hafi verið fyrsta sveitarfélagið sem skrifaði undir það að vera hluti af þessu móttökusveitarfélagi og tekur þátt í því að inna af hendi samræmda móttöku fyrir flóttafólk. Ég fagna því og óska Reykjanesbæ til hamingju með að hafa verið fyrsta sveitarfélagið til að skrifa undir þetta samkomulag 11. febrúar.

Herra forseti. Það er ágætt að minnast á að umræðan um þetta frumvarp hefur farið svolítið út og suður og verið teygð og toguð og frumvarpið í raun verið misskilið að mörgu leyti. Vonandi er það vegna misskilnings en ekki vegna vilja viðkomandi ræðumanna í ræðustól Alþingis vegna þess að hér hafa orð verið látin falla sem bera ekki sérstaklega mikinn vott um manngæsku og mannúð. En við þurfum að efla og styrkja og standa ávallt vörð um mannúðina og manngæskuna þegar kemur að því að taka á móti fólki á flótta. Það hafa ekki verið fleiri á flótta um allan heim en núna á þeim tímum sem við lifum og það er slæmt. En um leið leggur það líka á okkur hin siðferðislegar byrðar, ekki bara fjárhagslegar, vegna þess að hér hafa komið upp þingmenn og haft miklar áhyggjur af krónum og aurum sem fara í þetta verkefni sem boðað er með þessu frumvarpi, en siðferðisleg skylda okkar verður ekki metin til fjár.

Mannúðin verður ekki metin til fjár og ég hef sagt það áður, herra forseti, að samfélög eru alltaf metin út frá því hvernig við komum fram við okkar allra minnstu bræður og systur. Það er nú einu sinni svo, herra forseti, að okkar allra minnstu bræður og systur er fólk sem hefur neyðst til þess að flýja heimili sín vegna þess að langflestir vilja vera heima hjá sér en vegna sárafátæktar, vegna stríðsátaka, vegna afleiðinga stríðsátaka og vegna afleiðinga loftslagsbreytinga flýr fólk heimili sín, fólk sem er í svo mikilli neyð að það tekur áhættu um líf sitt og sinna allra nánustu til þess að fara í það ferðalag að leita að betra lífi.

Ég tel að frumvarpið sé gott og nauðsynlegt vegna þess að við höfum séð það líka að skortur hefur verið á samræmdri upplýsingagjöf og ráðgjöf fyrir fólk á flótta sem hingað leitar. Ég tel að þar með getum við líka komið í veg fyrir að fólk þekki ekki réttindi sín. Við getum stuðlað að því með því að koma á fót þessu Fjölmenningarsetri. Við getum stuðlað að því að fólk verði upplýst bæði um réttindi sín og um samfélagið sem það er að ganga inn í og þekkir ekki og hvernig það geti á sem bestan hátt komið undir sig fótunum og orðið hluti af íslensku samfélagi vegna þess að fólk sem leitar hingað til okkar þráir að vera hluti af þessu samfélagi, þráir ekki að vera skilgreint sem flóttafólk, það þráir einfaldlega að fá að lifa og búa í samfélagi sem býður upp á frið og ró, búa í heilnæmu samfélagi fyrir sig sjálft, börnin sín og nánustu aðstandendur. Þetta getur íslenskt samfélag sannarlega boðið upp á og við getum gert meira af því að deila þeim gæðum með öðrum, jafnvel þó að harðni í ári líkt og gerst hefur hér undanfarin ár. Jafnvel þótt við glímum við erfiðleika vegna heimsfaraldurs líkt og allar aðrar þjóðir í heiminum gefum við samt ekki afslátt af því siðferði sem við viljum halda vörð um, afslátt af þeim gildum sem við viljum sýna. Við gefum ekki afslátt af þeirri manngæsku eða mannúð sem við viljum að íslenskt samfélag hverfist um, þvert á móti hjálpum við öllum þeim sem þurfa á aðstoð að halda, hvort sem það er fólk sem hefur misst vinnuna, sem hefur orðið fyrir tekjumissi, sem veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér, en líka fólk sem hefur flúið heimili sín, land sitt og hefur rekist á milli landa og þjóða í leit að betra lífi vegna þess að við eigum gnægð mannauðs og auðæfa hér á landi til þess að geta hjálpað sem flestum.

Það hryggir mig einfaldlega þegar þingmenn koma hingað upp og tala um að við getum alls ekki tekið við öllum sem hingað koma. Það er nú einu sinni svo að Ísland er ekki fyrsta viðkomuland þeirra sem hafa lent í mestum stríðsátökum eða afleiðingum þeirra. Ísland er lengst norður í Atlantshafi. Það er erfitt að komast hingað. Því er þetta ekki fyrsti viðkomustaður sem blasir við íbúum þeirra svæða þar sem neyðin er stærst. Við verðum að bera virðingu fyrir því að fólk sem leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd, eftir friði, eftir aðstoð, eftir hjálp til að endurheimta líf sitt hefur margt lagt ansi margt á sig á þeirri vegferð.

Ég fagna þessu frumvarpi hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Ég tel þetta vera hluta af því sem við eigum að gera miklu betur hér á landi. Það er margt sem við þurfum að bæta í móttöku flóttafólks. Við þurfum sömuleiðis, því þingmenn hafa komið í ræðustól og talað um að það eigi frekar að styðja við fólk að vera í sínum upprunalöndum og -ríkjum, en við eigum að geta gert hvort tveggja. Við eigum að sjálfsögðu að halda áfram að auka fjármagn til þróunarsamvinnu og auka fjármagn til fjölþjóðastofnana sem inna af hendi nauðsynlegt mannúðarstarf. En við eigum ekki að auka fjármagn til þess að fólk ílengist í flóttamannabúðum vegna þess að enginn vill búa í flóttamannabúðum til lengdar, flóttamannabúðir eru milliáfangi en ekki lokastaður.

Ég fagna þessu frumvarpi eins og ég segi. Ég hefði viljað sjá það koma fram fyrr en þetta er sömuleiðis nauðsynlegt skref í því að við mótum heildræna stefnu í málefnum flóttafólks og innflytjenda, í málefnum þeirra sem hingað koma og leita til okkar eftir alþjóðlegri vernd og sem hingað koma í leit að friði og stuðningi. Það er líka þannig að með því að samræma þessa móttöku erum við að jafna aðstöðumuninn. Við erum líka að aðstoða þau sveitarfélög sem hafa lýst sig viljug til þess að taka á móti flóttafólki. Við erum að aðstoða þau til að veita sem besta þjónustu, til að byggja upp reynslu og þekkingu í málaflokknum, til að byggja upp þekkingu hjá því starfsfólki sem sinnir þessum málaflokki,. Staðreyndin er sú að okkur hefur skort reynslu og þekkingu í þessum málaflokki og okkur hefur skort starfsfólk sem hefur reynslu. Ég tel að þetta frumvarp muni aðstoða okkur öll við að móta heildræna stefnu um það hvernig við tökum sem best á móti þeim sem til okkar leita eftir alþjóðlegri vernd.