151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að þingmaðurinn nefndi að í þessari umræðu hefði borið á því að það hefði skort á manngæsku og mannúð. Ég fór að velta fyrir mér í hvað hv. þingmaður væri að vísa. Að vísu voru a.m.k. tveir hv. þingmenn, þeir Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ásmundur Einar Daðason, sem fóru aðeins meira í manninn en boltann en ég myndi ekki flokka það sem eitthvað sem væri til marks um skort á manngæsku eitt og sér. En ég velti fyrir mér, þetta er áhyggjuefni ef það skortir manngæsku hjá þingmönnum, til hvaða umræðu eða ummæla er hv. þingmaður að vísa?