151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar ég ýja að því að það beri á skorti á manngæsku er ég að tala um þann málflutning þingmanna að vilja frekar halda fólki í flóttamannabúðum og styrkja þær flóttamannabúðir en fá fólk hingað til okkar. Ég er líka að tala um þann málflutning að við getum ekki tekið á móti mörgum. Ég held að það verði að flokkast á einhvern hátt sem skortur á nauðsynlegri ef ekki meiri manngæsku en ella. Hér hafa komið upp þingmenn líka sem tala oft og iðulega um kristileg gildi, sem er vel, en ég minni líka á að þjóðkirkjan á Íslandi hefur stigið fast til jarðar þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda og akkúrat talað um meiri mannúð, meiri manngæsku inn í þennan málaflokk. Ég veit að hv. þingmaður er uppfullur af manngæsku og mun að sjálfsögðu styðja við það í hvívetna. En þegar eimir eftir af efasemdum um að fólk leiti hingað í réttum tilgangi, að hér vaði uppi glæpagengi o.s.frv., má sú orðræða ekki vera á kostnað mannúðarinnar og manngæskunnar gagnvart því fólki sem kemur hingað í leit að betra lífi, og í angist. Af því það er líka hópur sem við þurfum að tala við og ég veit að hv. þingmaður hefur gert í sinni tíð sem stjórnmálamaður.