151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða eitt stærsta, raunar jafnvel langstærsta viðfangsefni samtímans sem varðar líf og heilsu og velferð milljóna, tugi milljóna, hundruð milljóna manna þess vegna, og þegar um svona stórt viðfangsefni er að ræða hlýtur að skipta máli að þeir möguleikar sem við eigum á að koma til aðstoðar nýtist sem best, nýtist sem flestum og nýtist sérstaklega þeim sem eru í mestri neyð. Það hefur einmitt verið rauður þráður í gagnrýni á þau áform sem hér eru til umræðu og annað í stefnu stjórnvalda að þetta sé ekki til þess fallið að hjálpa eins mörgum og við gætum, þetta sé ekki til þess fallið að hjálpa sérstaklega þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Svoleiðis að snúa því upp í að fela í sér einhvern skort á manngæsku finnst mér afskaplega öfugsnúið. Við hljótum að vilja þegar viðfangsefnið er svona stórt og mikilvægt ræða það út frá staðreyndum og leita bestu lausnar.

Og talandi um flóttamannabúðirnar þar sem ástandið er mjög misgott eftir stöðum. Ég hef eins og fleiri þingmenn ferðast um í Miðausturlöndum og við Miðjarðarhaf og kynnt mér aðstæður þarna. Langflestir þeirra sem voru í flóttamannabúðunum, aðrir þingmenn hafa sömu sögu að segja, þráðu að komast aftur til síns heima en í þeim flóttamannabúðum þar sem ástandið var bágborið vildu menn að sjálfsögðu frekar komast bara eitthvert annað. Þess vegna má ekki líta fram hjá mikilvægi þess að Vesturlönd aðstoði í nærumhverfinu og það má ekki snúa því upp í einhvern skort á manngæsku því að það er þvert á móti. Þetta er tilraun til þess að hjálpa sem flestum sem mest.