151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann fór hér mikinn og nefndi Miðflokkinn oft á nafn og margt sem hann sagði þar er náttúrlega ekki svaravert og dylgjur einar, svo einfalt er það nú. En það sem ég ætlaði að koma inn á við hv. þingmann er kostnaðurinn. Hv. þingmaður heldur því staðfastlega fram að kostnaðurinn sé einungis 23,7 millj. kr. En í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …“

Ég hef spurt hæstv. ráðherra að því hvort þetta þýði að kvótaflóttamenn og hælisleitendur fái sömu þjónustuna. Hann hefur sagt svo vera og það hefur komið hér fram. Þá vil ég benda á eitt: Á síðasta ári fékk hér 631 einstaklingur alþjóðlega vernd og meðalkostnaður vegna móttöku kvótaflóttamanna, fyrir einhleypan einstakling, er um 6 millj. kr. á ári. Ef við margföldum þá tölu með 631 þá gerir það 3.786 milljarða kr., sem þetta kostar ríkissjóð þegar þessi hópur, sem fengið hefur dvalarleyfi, fær sömu þjónustu og kvótaflóttamenn. En núna er það þannig að þessi hópur hefur þurft að bíða, sumir hverjir í marga mánuði, eftir því að fá dvalarleyfi. Þessum biðtíma fylgir heilmikill kostnaður. Hann var 3,5 milljarðar á síðasta ári. Hvernig fær hv. þingmaður það þá út að þetta sé engin hækkun þegar kostnaðurinn er hvergi nefndur sem ríkissjóður þarf að leggja út fyrir? Þetta kemur allt úr sama kassanum, hv. þingmaður, úr ríkissjóði. Það kemur úr sama kassanum og það þarf að greiða fyrir biðtímann sem Útlendingastofnun greiðir. Svo þegar viðkomandi hópur fær dvalarleyfið bætist þessi kostnaður við, sem er aukinn kostnaður.