151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hélt nú að Píratar vissu allt betur en aðrir. Það er a.m.k. oft þannig í málflutningi þeirra hér í þinginu, en það er alla vega ekki að þessu sinni vegna þess að hv. þingmaður viðurkenndi það; hann veit ekki betur þegar ég ræði þennan kostnað. Það er nú bara málið. Það er hugsanlega þannig að kerfin hafi ekki talað saman. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur kannski ekkert rætt við fjármálaráðherra um þetta mál, hvaða kostnað það hefði hugsanlega í för með sér. Jú, auðvitað kosta tvö stöðugildi eitthvað um 24 milljónir. Það stendur í frumvarpinu. En það stendur líka í frumvarpinu, hv. þingmaður, að það á að veita sömu þjónustuna fyrir kvótaflóttamenn og hælisleitendur. Það er grundvallarbreyting sem kostar peninga. Og ég sit í fjárlaganefnd og hugsa bara um ríkissjóð, þetta verður að liggja fyrir. Það er alveg ljóst að það er aukinn kostnaður. Þegar þessi hópur fær dvalarleyfi þá bætist við aukin þjónusta, aukinn kostnaður, ofan á kostnaðinn sem var þegar hópurinn var að bíða eftir því að fá dvalarleyfi. Það er þetta sem ég er að reyna að skýra út fyrir hv. þingmanni, og hann virðist ekki skilja og snýr út úr öllu sem maður segir hér, hæstv. forseti, vegna þess að hann vill ekki skilja þetta. Þetta er ósköp einfalt. Þetta þýðir aukinn kostnað en hæstv. félagsmálaráðherra hefur engar áhyggjur af því að hann hefur ekkert með það að gera. Þetta kemur allt úr sama kassanum, ríkissjóði, sjóði okkar allra. Við verðum einfaldlega að hugsa um það sem fram undan er og þær miklu skuldir sem ríkissjóður þarf að glíma við. Hér er verið að opna fyrir mun meiri fjárútlát í þennan málaflokk án þess að menn hafi nokkuð sýnt fram á hvar þeir ætla að skera niður. Hvar ætlar hv. þingmaður að skera niður?