151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svona að undanskildu slaðrinu sem hv. þingmaður jós yfir Miðflokkinn og þingmenn hans í ræðu sinni hefði ræðan að öðru leyti geta verið eins og ræða Sumarliða sem var einu sinni fullur. Hann sagði, með leyfi forseta: Ég veit allt, ég skil allt, ég geri allt miklu betur en fúll á móti. Ræða þingmannsins, þ.e. sá hluti hennar sem var ekki slaður um Miðflokkinn og þingmenn hans, byggðist á þessu: Ég veit og mér finnst og mér þykir. Þetta er allt gott og gilt, en það voru engin rök. Ég vona að ég móðgi ekki hv. þingmann, en ég geng út frá því að hann sé trúlaus maður og skil ekki messíasarduldina sem blasir hérna við. Ég átta mig bara ekki á henni þar sem hv. þingmaður hefur talað þannig og komið fram á þá vegu að hann sé trúlaus maður. Að þessu slaðri undanskildu var þessi ræða einmitt svona: Ég veit allt, ég skil allt, ég geri allt miklu betur en fúll á móti.

Hv. þingmaður segist líka skilja peningaupphæðina, sem hér er um að tefla, miklu betur en allir aðrir. Ríkisendurskoðun er reyndar nýbúin að gefa Pírötum falleinkunn fyrir bókhald, en samt sem áður kemur þessi hv. þingmaður hér og segir þetta. En það sem ég vildi spyrja hann að er: Telur hv. þingmaður í fyrsta lagi að Miðflokkurinn sé búinn að koma sér upp útibúi í útlöndum, þ.e. í Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og í danska jafnaðarmannaflokknum? Vegna þess að hann ofmetur að mínu mati áhrif Miðflokksins mjög. Hvað varðar tengslin þarna á milli þá er það sem Miðflokkurinn hefur verið að halda fram einmitt það sem þessar tvær stofnanir (Forseti hringir.) sem ég nefndi hafa haldið fram í sínum málflutningi. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja þingmanninn að því hvort hann telji að Miðflokkurinn hafi seilst til áhrifa hjá þessum tveimur stofnunum.