151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Miðflokkurinn er einn ein af þeim stofnunum í samfélaginu sem koma úr íhaldsátt þegar kemur að útlendingamálum, elur á útlendingaótta, meðvitað eða ómeðvitað, viljandi eða óviljandi, með málflutningi sínum og fráleitum staðleysufullyrðingum sem hér fá að flakka frá hv. þingmönnum Miðflokksins æ ofan í æ, margleiðréttum. Hvort aðrar stofnanir heiti Miðflokkurinn eða ekki skal ég ekki segja um, eflaust einhvers staðar, ég þekki það ekki, virðulegi forseti, og mér er bara slétt sama.

Þessi íhaldsátt og útlendingaandúðartónn er í mörgum stofnunum, heyrist t.d. mjög mikið á Útvarpi Sögu, heyrist mikið frá Miðflokknum og heyrist mikið úr þessari íhaldsátt, hvaða nafni sem það nefnist. Það snýst ekki um nafnið að mínu viti, virðulegi forseti. Ég tel mig nú vera miðjumann sjálfan, alla vega ef ég er í góðu skapi. En upphæðin sem hv. þingmaður er hér, að því er virðist, með minnimáttarkennd yfir að ég þekki, kemur ekki úr mínum ranni, ég fann hana ekki út sjálfur og ég er ekkert svo klár að ég gæti reiknað hana út ef ég væri ekki með vinnu hæstv. ráðherra og aðstoðarfólk til þess að hjálpa mér með það. Það vill svo til að það kemur fram svart á hvítu á bls. 5 í frumvarpinu, 23,7 milljónir. Þar er það. Þannig að ég þurfti ekki meiri greind til en að lesa frumvarpið, virðulegi forseti.