151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að biðjast afsökunar á þessu. Ég segi bara hlutina eins og ég sé þá. Hv. þingmenn Miðflokksins geta móðgast yfir því og verði þeim að því, það varðar mig ekki neitt. Ég er búinn að horfa upp á þetta árum saman hér á Alþingi, hvernig þeir koma hingað upp og þykjast hafa efni á því að vera eitthvað móðgaðir yfir því að fólk segi það sem er bersýnilegt. Hv. þingmenn Miðflokksins skulu hætta rangfærslunum sem ýta undir útlendingaandúðina í landinu. Ég margítrekaði hérna, hvort sem þetta er viljandi eða óviljandi, meðvitað eða ómeðvitað, að þetta er til staðar og ég mun halda áfram að gagnrýna það þar og þegar sem mér sýnist. (Gripið fram í.) Ég frábið mér það að ætla fara að biðjast afsökunar á því hvernig ég fjalla um óboðlegan málflutning Miðflokksins. Það er nóg komið af þessu. Hættið þessu bara.