151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það hefur verið kostulegt á köflum að fylgjast með þingmönnum, nokkrum sérstaklega, koma upp og hafa það helst til málanna að leggja að reyna að útskýra hversu miklu betri manneskjur þeir eru en óbreyttur pöpullinn. Nú heyri ég einhvern þingmann andvarpa hér í hliðarsal en það er nú bara þannig að hver lítur sínum augum silfrið. Ég var í því síðustu 20 mínúturnar eða svo að breyta nálgun minni á þessa stöku ræðu mína í þessu máli. Mér hefur þótt umræðan hér, eftir því sem á hefur liðið, vera að leita í þann farveg hjá stuðningsmönnum frumvarpsins að það sé bara ekkert að breytast. Allt hafi þetta verið hin raunverulega staða mála um langa hríð og það væri allt byggt á misskilningi þingmanna Miðflokksins að þarna væri einhver viðbótarkostnaður að verða til.

Það kristallast í þessu að sumum þingmönnum hér á hinu háa Alþingi virðist ekki alveg ljóst samhengi hlutanna. Þó að þetta afmarkaða mál sé lítið og fáar greinar í því hefur það auðvitað afleidd áhrif. Afleiddu áhrifin eru það sem við þingmenn Miðflokksins höfum verið að reyna að benda á hér í dag, m.a. með prýðilegum málflutningi hv. þm. Birgis Þórarinssonar, fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, sem fer auðvitað bara hingað upp sem grandvar vörslumaður ríkissjóðs. Hér koma þingmenn upp, sumir stynjandi í hliðarsölum, gargandi að það séu einhver annarleg sjónarmið undirliggjandi þar. Af hverju ræða menn þá ekki málið eins og það liggur fyrir, að mál eins og þetta hafi afleidd áhrif? Því það er auðvitað það sem það hefur.

Ef við tökum bara kostnaðarhlutann til að byrja með, sem kemur fram í 6. lið greinargerðarinnar, er talað um að kostnaður verði 23,7 milljónir að teknu tilliti til 700.000 kr. einskiptiskostnaðar. Það er enginn ágreiningur um það að tvö stöðugildi hjá Fjölmenningarsetri kosta nokkurn veginn þetta. Málið snýst ekkert um það. Umræðan um fjárhagslegan hluta þessa máls snýst ekkert um gagnrýni á að það sé metið með nokkurn veginn réttum hætti hver kostnaðurinn við tvo starfsmenn er. Það liggur fyrir. Gagnrýnin og umræðan sem við viljum draga fram er hinn afleiddi kostnaður. Ef það er þannig að það er ekkert að breytast, bara ekki neitt, ef allur sá kostnaður sem breytt frumvarp kallar fram er nú þegar til staðar, fyrir utan þessar 23,7 milljónir, þá væri ágætt, af því ég sé að hæstv. ráðherra er hér í hliðarsal og ég gef mér að hann komi upp í lokaræðu, komi ekki fleiri á mælendaskrá að ræðu minni lokinni, að hann færi yfir það með hvaða hætti sú staða hefði þróast. Í 5. kafla greinargerðar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga sem skipaður var 5. mars 2019 til að fylgja eftir tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks.“

Ég er með skýrsluna sem er grundvöllur þessarar vinnu. Ef menn telja að á þeim 46 blaðsíðum sem þar eru sé ekki neitt sem kalli á afleiddan kostnað þá er það túlkun sem ég bíð spenntur eftir að fá útskýringar á. Hitt er enn athyglisverðara ef menn líta svo á að þetta sé allt saman orðin raunin á grundvelli aðgerða stjórnvalda í millitíðinni, frá því að þessi tillaga kom fram, því að mig minnir að eitt af áhersluatriðum sem töluvert var tekist á um í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á sínum tíma hafi verið keimlíkt þessu. Því kemur mér ekkert á óvart að hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hafi komið hér upp og verið býsna ánægð með frumvarpið í umræðu sinni um fundarstjórn forseta. En frá því að sú ríkisstjórn sprakk hér eina nóttina hefur ekki annað gerst í þessu máli, að því er ég best veit, en það að undirritaðir hafa verið samningar við þrjú sveitarfélög um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þetta eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Reykjavík. Það hefur gengið svona upp og ofan, svo að vægt sé til orða tekið.

Ég er hér með útprentun fundar nr. 394 hjá velferðarráði Reykjanesbæjar sem var haldinn 13. janúar sl. Ég hef ekki farið í gegnum svartari lestur síðan ég skoðaði skýrslu Ríkisendurskoðunar um Vatnajökulsþjóðgarð sem er annað áhugamál ríkisstjórnarinnar að keyra í gegn þannig að þetta virðist einhvern veginn allt bera að sama brunni. Niðurstaða í fjögurra blaðsíðna fundargerð, þar sem tekið er á þessum samskiptum, er, með leyfi forseta:

„Í ljósi framangreinds telur velferðarráð sér ekki stætt á að ganga til samninga við Útlendingastofnun um að Reykjanesbær taki yfir þjónustu á Lindarbraut 536 á þeim grundvelli sem stofnunin leggur til.“

Það er því ekki eins og það samstarf hafi verið á einhverjum beinum og breiðum vegi. Ef þetta er grundvöllur að því að allt sé nú þegar orðið með þeim hætti sem verið er að lýsa væri áhugavert að heyra hvort það hafi gerst með þessum samningi við sveitarfélögin.

Annað sem gæti komið til, sem myndi kannski gera það enn skrýtnara að allt sé nú þegar orðið með þessum hætti, er að fyrir ári, nánar tiltekið 21. janúar 2020, var hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason að mæla fyrir þessu sama máli. Í andsvari við framsöguræðu hæstv. ráðherra segir hv. þm. Miðflokksins Birgir Þórarinsson — nú náði ég ekki hvort samtalið atvikaðist með sama hætti í dag en af því að þetta er til á prenti frá því fyrir ári prentaði ég þetta út til hægðarauka:

„Nú segir í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4, um mat á áhrifum: „Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …““

Síðan spyr hv. þingmaður:

„Er það svo að þeir sem koma hingað til landsins og fá dvalarleyfi fái þá nákvæmlega sömu þjónustu og kvótaflóttamenn?“

Hæstv. félagsmálaráðherra svarar fyrir réttu ári, með leyfi forseta:

„Ég þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn. Hugsunin með samræmdri móttöku er að samræma þetta. Við erum að taka á móti kvótaflóttafólki og síðan er að koma fólk sem fær leyfi af mannúðarástæðum o.fl. Breytingarnar sem verið er að gera með samræmdri móttöku er að allir sem koma hingað inn sem flóttamenn fari í sambærilegan farveg.“

Þessi umræða átti sér stað fyrir ári, ég held að þetta sé orðrétt fyrir utan einhverjar dagsetningabreytingar, málið er efnislega óbreytt, og hér erum við aftur stödd. Hér tala menn eins og það sé bara ekkert að gerast, engar breytingar verði með frumvarpinu. Svo koma hér tilteknir þingmenn í sérstaklega miklu ójafnvægi, hálfgargandi og verða sér til minnkunar.

Hæstv. forseti. Þarf einhvern að undra að menn skynji það sem svo að verið sé að reyna að lauma breytingum á þessum málaflokki í gegnum kerfið með aðferð sem oft hefur verið lýst í tengslum við mögulega Evrópusambandsaðild, með salamíaðferðinni, smábita í einu?

Ég ítreka, og ég gef mér að hæstv. ráðherra komi hér aftur upp við lok umræðunnar til að ræða þetta, hvernig þetta hefur þróast, áhersluatriðin sem nefndin lagði til. Hún skilaði skýrslu um samræmda móttöku flóttafólks í janúar 2019 sem er grundvöllur þessa frumvarps, eins og segir í samráðskafla frumvarpsins sem liggur fyrir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga sem skipaður var 5. mars 2019 til að fylgja eftir tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks.“ — Það er þessi skýrsla.

Það eru til viðmiðunarreglur flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks. Í þeim segir, með leyfi forseta, um gildissvið og yfirstjórn:

„Reglur þessar gilda um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita landvist, sbr. 51. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.“

Áfram segir í markmiðskaflanum, með leyfi forseta:

„Markmið reglnanna er að vera til leiðbeiningar og viðmiðunar fyrir þá sem eiga hlut að móttöku flóttamannahópa sem koma í boði stjórnvalda …“

Það eru sem sagt kvótaflóttamenn. Síðan er hér í 33 efnisliðum farið yfir ýmis réttindi og viðmið og þess háttar sem kvótaflóttafólk nýtur og geri ég ekki athugasemdir við neitt af því.

Staðreyndin er sú að við eigum að taka vel á móti þeim sem við tökum á móti. En við eigum ekki að færast meira í fang en við ráðum við. Í því ljósi eigum við að horfa til þess að styðja við þá sem eiga erfitt í þessu samhengi á sínum heimasvæðum því að flest flóttafólk vill án nokkurs vafa fara aftur til síns heima. Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks er horft til stuðnings og réttinda og í 15. gr., um inntak aðstoðar við flóttafólk, segir, með leyfi forseta:

„Flóttafólk á rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Aðstoð sú sem flóttafólkið á rétt á, sbr. þó önnur ákvæði þessa kafla, er:

a. Fjárhagsaðstoð.

b. Félagsleg ráðgjöf.

c. Húsnæði, ásamt nauðsynlegu innbúi og síma.

d. Menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla.

e. Leikskólakennsla.

f. Tómstundastarf.

g. Heilbrigðisþjónusta og tannlækningar.

h. Þjónusta túlka.

i. Aðstoð við atvinnuleit.

j. Önnur nauðsynleg aðstoð.“

Gott og vel, en þetta fjallar um kvótaflóttafólk. Nú er umræðan hér í dag, hjá hæstv. ráðherra, fulltrúum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar, reyndar í fundarstjórn forseta af því að Viðreisn sá ekki ástæðu til að taka þátt í umræðunni, öll á þeim nótum að þetta sé allt saman löngu orðið. Við fulltrúar Miðflokksins séum bara að misskilja þetta. Öll þessi réttindi séu löngu til komin fyrir þá hópa sem falla undir það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að fara stuttlega yfir það með hvaða hætti það gerðist. Gerðist það með samningi við þessi þrjú sveitarfélög og var aðkoma Alþingis að því engin? Eða gerðist það með einhverjum öðrum hætti? Einhverra hluta vegna vorum við að ræða þetta sama mál fyrir ári og það hefur ekkert breyst í því.

Hæstv. forseti. Ræðutími minn er við það að renna út en ég vil bara enda á þessu: Allt tal um að það sé ekkert að gerast með þessu máli undirstrikar að þeir sem þannig tala átta sig ekki á samhengi hlutanna, átta sig ekki á því að frumvarp getur haft afleidd áhrif. Umræðan hér um fjárhagslegu áhrifin snýst ekkert um tvo starfsmenn Fjölmenningarseturs sem ég fagna að sitji væntanlega með nýjum forstöðumanni þeirrar stofnunar á Ísafirði. Ég ætla að ljúka þessu svona: Það er ekki boðleg umræða að halda því fram að ekkert sé að gerast nema menn útskýri með hvaða hætti mál breyttust verulega frá því að viðmiðunarreglur flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk voru gefnar út og frá því að málið var rætt hér fyrir akkúrat ári.