151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem fram hefur farið um þetta mál í dag. Ég ætla að leitast við að svara einhverju af þeim efnislegu athugasemdum sem komið hafa fram, en líka að bregðast við þeim pólitísku keilum sem slegnar hafa verið hér á köflum hjá einstaka þingmönnum. Ég vil byrja á því að segja að samræmd móttaka byggist á því að jafna stöðu þeirra sem koma til landsins. Hún byggist á því að við erum í raun á ákveðinn hátt að draga úr þjónustu við kvótaflóttafólk en bæta þjónustu við flóttafólk sem kemur á eigin vegum en er búið að fá stöðu í samfélaginu. Það er gríðarlega mikilvægt að við veitum einstaklingum sambærilega þjónustu sem komnir eru inn í samfélagið og við ætlum að taka á móti. Þetta rúmast allt innan ramma fjárlaga, innan ramma fjármálaáætlunar, innan þeirra fjárveitinga sem félagsmálaráðuneytið hefur á þessu ári og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun til næstu ára.

Að einhverju leyti byggjum við á lögum frá 1991 þar sem sveitarfélög hafa borið kostnaðinn. Samfélagið ber með ákveðnum hætti ábyrgð á þeim einstaklingum sem komnir eru inn í kerfið. Við getum síðan tekið umræðu um hvort við séum að hleypa of mörgum einstaklingum inn í kerfið eða of fáum, en samfélagið ber ábyrgð á einstaklingum sem komnir eru inn í kerfið. Það er því ábyrgðarhluti hjá stjórnmálaflokkum sem tala um að ekki megi veita einstaklingum sem komnir eru inn í kerfið þá þjónustu að kenna þeim íslensku, samfélagsfræðslu o.fl., það er það sem við erum að bæta við núna. Það er ástæðan fyrir því að menn draga þær ályktanir að viðkomandi stjórnmálaflokkur ali á einhvers konar útlendingahatri, eins og það var kallað hér. Ég fæ mig ekki til að skilja af hverju í ósköpunum slíkt gerist þegar við erum búin að ákveða á grundvelli laga á Alþingi að einstaklingur eigi að fá að taka þátt í samfélaginu. Við erum ekki að tala um einstaklinga sem eru enn með umsókn í kerfinu og hafa ekki fengið stöðu sína samþykkta o.s.frv. En ég skil bara ekki hvernig nokkur maður getur verið mótfallinn því að einstaklingur sem kominn er inn í samfélagið læri íslensku eða læri á íslenskt samfélag. Sá sem hugsar þannig hefur einhverjar annarlegar hvatir að baki, það er alla vega mín skoðun.

Við getum síðan rætt um hvað er skynsamlegt að taka á móti mörgum og með hvaða hætti við gerum það og á hvaða tíma við afgreiðum umsóknir o.s.frv. Það er bara allt önnur umræða, allt önnur lög. Hér erum við að færa þetta í það form, og sveitarfélögin hafa lengi kallað eftir því, að hægt sé að halda utan um þjónustu við þessa einstaklinga með sama hætti, þ.e. kvótaflóttafólk og fólk sem búið er að fá stöðu, og gert er í nágrannalöndum okkar. Við göngum raunar skemur en nágrannalöndin okkar í þessu sambandi. Í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, í öllum þessum löndum, fá sveitarfélög greitt frá ríkinu fyrir að þjónusta þessa einstaklinga og aðstoða við samfélagslega aðlögun. Í Svíþjóð og Danmörku er það reyndar þannig að sveitarfélögin hafa ekki val um hvort þau taka þátt í því, þeim ber að taka þátt í því. Við setjum þetta upp sem valverkefni. Þess vegna koma sveitarfélögin inn í það núna. Hér gerum við ráð fyrir því að þetta verði reynsluverkefni í eitt ár og að við notum það ár til þess að læra. Í Noregi eru það þrjú ár, í Svíþjóð eru það tvö ár, í Finnlandi þrjú ár og í Danmörku þrjú ár sem sveitarfélögin fá greitt frá ríkinu. Við erum að fara í tilraunaverkefni með nokkrum sveitarfélögum í eitt ár til að sjá hvernig okkur gengur. Menn eru á móti því og um er að ræða einstaklinga sem eru komnir inn í samfélagið. Upphæðirnar sem um ræðir eru á pari við það sem verið er að tala um í nágrannalöndum okkar. Að einhverju leyti er þetta kostnaður sem þegar fellur til í dag á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Að einhverju leyti er þetta kostnaður sem kemur inn og við náum að rúma innan þess ramma sem fjárlögin veita félagsmálaráðuneytinu á næstu árum. En við gerum það til reynslu í eitt ár til að læra af því. Við trúum því líka, og sveitarfélögin trúa því, að bæði sé hægt að aðstoða þetta fólk við að aðlagast íslensku samfélagi betur og nýta fjármagnið og starfskraftana betur. Við byggjum þetta á leiðbeinandi reglum sem gefnar voru út árið 2014 af þáverandi velferðarráðuneyti um móttöku á flóttafólki og sveitarfélög hafa verið að styðjast við þær reglur síðan, og það var í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi formanns Miðflokksins, sem talar síðan hátt og skýrt gegn þessari sömu aðlögun í dag, hann talar um að menn séu með dylgjur þegar hann er kominn akkúrat í hina áttina.

Mér er algerlega fyrirmunað að skilja þetta. Ég hef ekki verið flokkaður í þann hóp hér á Alþingi sem vill opna allar gáttir þegar kemur að flóttafólki og öðru slíku. Ég hef alltaf sagt: Það er gríðarlega mikilvægt að samfélag okkar ráði við að aðstoða fólk við að aðlagast. Ég hef reyndar ekki bara áhyggjur af flóttamönnum heldur líka af pólska samfélaginu, litháíska samfélaginu o.s.frv., að við gerum ekki nóg í því að aðstoða fólk við að læra íslensku, við að læra á samfélagsgerð okkar. Þess vegna skil ég ekki af hverju á Alþingi Íslendinga er einn þingflokkur sem virðist vera algerlega á móti því. Þess vegna get ég ekki annað en dregið þær ályktanir að á bak við það sé einhvers konar pólitík, að menn séu að fiska í gruggugu vatni eftir atkvæðum. Reynið þá að gera það á þeim grunni að ræða um að hleypa ekki fleirum inn í landið í staðinn fyrir að segja við þá sem komnir eru inn í landið að þið viljið ekki að þeir læri íslensku. Hvað vakir fyrir fólki sem vill ekki að fólk sem við erum búin að samþykkja inn í landið, fái aðstoð við að læra íslensku, fái aðstoð við að læra inn á íslenskt samfélag?

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan, að þetta verkefni er komið af stað á grundvelli verklagsreglna sem við vorum með 2014 sem við erum núna að aðlaga í samstarfi við sveitarfélögin, eins og ég sagði áðan, og samræma. Sú vinna er komin af stað. En þetta frumvarp snýr að því að gera þetta einfaldara. Það snýr að því að gera þessa vinnu markvissari til þess að við getum haldið utan um það tilraunaár sem við erum að fara í; að Fjölmenningarsetrið, sem staðsett er á Ísafirði og á að efla, fái það hlutverk að halda utan um þetta tilraunaverkefni til eins árs, þetta reynsluverkefni, til að við getum lært af því. En ef menn vilja ekki læra af því, ef það þjónar einhverjum pólitískum tilgangi að gera það ekki, þá veit ég ekki hvað á að segja. Af hverju viljum við ekki að þeir einstaklingar aðlagist sem við erum búin að hleypa inn í landið, þeir einstaklingar sem fengið hafa hér stöðu á grundvelli laga sem Alþingi hefur samþykkt, sem eru útlendingalög? Ég skil það ekki. En við getum síðan tekið umræðuna um hversu marga við ráðum við að aðstoða við að aðlagast íslensku samfélagi og hvernig við eigum að forgangsraða fjármagni þegar kemur að því. En hvernig eigum við að vita hvað við getum aðstoðað marga ef við viljum ekki einu sinni aðstoða þá, eins og hv. þingmenn Miðflokksins tala?

Virðulegur forseti. Að öðru leyti vonast ég til þess að eiga gott samstarf við velferðarnefnd um málið eftir að það fer þangað og vonast til að þetta mál verði afgreitt frá Alþingi. Ég trúi því að þingflokkur Miðflokksins muni sjá að sér í þessu máli. Ég mun seint trúa því að sá þingflokkur sem talar fyrir íslensku máli, talar fyrir íslensku samfélagi, vilji ekki taka þátt í því að aðstoða þetta sama fólk við að aðlagast íslensku samfélagi.