Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langar til að biðja hann að fara aðeins betur ofan í það atriði sem snýr að því með hvaða hætti verður dregið úr þjónustu við kvótaflóttafólk. Mér þótti athyglisvert svar hæstv. ráðherra um að þetta sneri m.a. að samningum um tannlæknaþjónustu sem ég skil þannig að þeir sem njóta réttindanna fái þá mismunandi tannlæknaþjónustu milli landsvæða. Getur verið að það verði mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig réttindi fólks verða varðandi það að komast til tannlæknis?

Hitt atriðið sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í, í ljósi þess að hann telur regluverkið ekki hafa afgerandi áhrif á fjölda hælisumsókna, er frétt frá 19. janúar 2021, tæplega mánaða gömul, frá Útlendingastofnun, af heimasíðu þeirra, þar sem talað er um hlutfallslega flestar umsóknir um vernd á Íslandi af Norðurlöndunum. Það er nú bara þannig að hlutföllin eru algjörlega ótrúleg. Við erum með sexfaldan fjölda umsókna miðað við Noreg og Danmörku og á sama tíma er forsætisráðherra Danmerkur að segja að þar standi vilji til þess að regluverkið verði með þeim hætti að enginn sæki um hæli í Danmörku. Við erum með sex sinnum fleiri umsóknir. Mig langar að spyrja, af því að hæstv. ráðherra virðist ekki telja að regluverkið hafi afgerandi áhrif á þetta, hvernig hann skýri það. Er það veðrið? Eða hvað er það sem hælisleitendur eru að sækja í að mati ráðherra? Getur það verið eitthvað annað en regluverkið og réttindin? Það eru sex sinnum fleiri sem sækja um hæli hér en í Noregi og Danmörku. Kann ráðherra einhverja skýringu á því?