Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert mál að senda hv. þingmanni samningana sem gerðir eru við þessi sveitarfélög um móttöku kvótaflóttafólks. Það er verið að gera breytingar þannig að heilbrigðiskostnaður, sem hefur verið greiddur í sex mánuði, fellur einfaldlega undir reglur sveitarfélagsins. Það er ekki verið að ráða sérstakan verkefnisstjóra í kvótaflóttafólki heldur fellur það undir starfið að samræmdu móttökunni. Annar kostnaður fellur undir almennar reglur sveitarfélagsins varðandi þessi mál, þess móttökusveitarfélags sem viðkomandi sækir í. Auðvitað getur það að einhverju leyti verið breytilegt. En þannig er það bara á Íslandi, líka fyrir Íslendinga, það er breytilegt á milli sveitarfélaga en menn eru þá með nokkur sveitarfélög sem verið er að vinna með hvað það snertir.

Þar erum við komin að kjarnanum í þessari umræðu. Þetta mál snýst ekkert um fjölgun flóttafólks, þetta snýst ekki um það. Ég hef ekki þá trú að hér séum við að skapa þvílíka hvata, með eins árs reynsluverkefni á Íslandi, á meðan Noregur er með fimm ár, að það valdi því að það verði stórkostleg aukning á umsóknum hér. Ég hef ekki þá trú. Ég hef ekki þá trú að það að við séum að setja inn samfélagskennslu og íslenskukennslu, sem er nýjung núna, valdi því að menn taki þá ákvörðun í stórum stíl að koma til Íslands. En það kann vel að vera að það sé eitthvað í útlendingalögunum sem við þurfum að skoða en það tengist ekki þessari vinnu hér. Það er alveg ótrúlegt ef þannig er. En það kemur í ljós á þessu reynsluári. Það er engin útópía, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu hér í dag, að velta því upp hvað vaki fyrir flokki sem talar gegn reynsluverkefni þar sem lögð er áhersla á að veita innflytjendum, sem búnir eru að fá stöðu, meiri samfélagsfræðslu. (Forseti hringir.)Hvað er það sem fær flokk til að vera á móti því? Ég bara segi aftur og mönnum finnst það dylgjur: Ég stend á gati, ég bara skil það ekki.