151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér er ágætismál á ferðinni, skref í rétta átt og táknrænt fyrir vilja þess ráðherra sem leggur það fram í frelsisátt. Skrefið er styttra en útlit var fyrir í fyrstu, það verður að viðurkennast, styttra frá því hugmyndin var fyrst lögð á borð. Þá var um að ræða frumvarp um breytingar á áfengislögum sem boðaði það sem hér er boðað, sölu úr brugghúsum, en jafnframt netverslun. Netverslunin var í stóra samhenginu stóra skrefið, og það hefur síðan horfið, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir rétt í þessu. Nú tekur málið eingöngu til þess að veita brugghúsum leyfi til að selja veigar, áfengi, bjór úr húsunum sjálfum. Það er gert til að mæta kröfu minni áfengisframleiðenda, sérstaklega á landsbyggðinni eins og rakið er í greinargerð með málinu, en ætti að geta átt, a.m.k. síðar meir, við fleiri staði en landsbyggðina þótt þessir staðir séu fyrst og fremst í dag úti á landi. Verið er að heimila í tilteknum tilvikum að selja áfengi í smásölu til neytenda og felur það í sér að áfengisframleiðanda sé heimilt að selja á framleiðslustaðnum sjálfum eigin framleiðslu í neytendaumbúðum sem er þá til neyslu annars staðar en við heimsókn í brugghúsið.

Ég er ánægð með röksemdafærsluna eins og hún er teiknuð upp í greinargerð með málinu þar sem er rakið að tugir smærri brugghúsa séu starfandi um landið allt. Brugghúsin framleiða eins og við vitum fjölbreytt úrval afurða með skírskotun til staðhátta og menningar um leið. Þar er rakið að við smíði frumvarpsins hafi verið horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum og það held ég að hljóti að skipta máli til að sefa áhyggjuraddir þeirra sem vísa réttilega til lýðheilsusjónarmiða varðandi sölu áfengis, að það sé þá dregið upp skýrlega að Ísland sé sannarlega ekki að finna upp hjólið hér heldur sé þetta viðtekin venja á öðrum Norðurlöndum, að í nágrannalöndum Íslands sé smærri brugghúsum þegar almennt heimilt að selja áfengt öl eða bjór í smásölu en með mismunandi regluverki í hverju landi fyrir sig. Þarna er sérstaklega rakið að horft hafi verið til lagasetningar í Finnlandi og að Finnar hafi árið 2018 sett lög þar sem þetta skref var stigið.

Skrefið er gott og í frelsisátt en ég myndi segja að það sé fyrst og fremst ágætisbyrjun, og eins og ég nefndi í upphafi augljóst í mínum huga þegar maður skoðar málið eins og það var fyrst kynnt, og greinar hæstv. ráðherra um þetta mál og þennan málaflokk, að vilji hæstv. ráðherra hafi staðið til þess að gera meira, stíga stærri skref en það sem stigið er með þessu máli. Ég þykist vita hverjar ástæður þess eru að málið hefur tekið þeim breytingum sem síðan hafa orðið. Flokkur hennar er hér kominn í búning þess sem samstarfsflokkarnir geta þolað í sambúðinni og hin íhaldssamari öfl í samstarfinu komast sennilega ekki mikið lengra en hér er gert. En gott er þetta svo langt sem það nær.

Smærri brugghúsin, ef maður setur þetta í samhengi við það sem hefur verið að gerast í íslenskri ferðaþjónustu, hafa á síðastliðnum árum byggt upp ferðamennsku í kringum rekstur sinn. Af því að þau rök heyrast auðvitað stundum hvort þess sé nokkur þörf að stíga skref sem þetta má nefna að á landsbyggðinni á þetta sérstaklega við. Þar eru flest störf í kringum þennan rekstur. Ég tek undir það sem frumvarpið greinir og lýsir sjálft, að með þessu sé verið að stuðla að því, bæði beint og óbeint, að efla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Í því ljósi er þetta mál um leið einnig jákvætt. Þarna er rakið að það sé algengt að brugghús bjóði upp á skipulagðar kynnisferðir um framleiðslustaði gegn gjaldi og gestir í þessum ferðum hafi hingað til ekki mátt kaupa áfengi í smásölu í neytendaumbúðum á þessum stöðum. Smærri brugghús eru, eins og við þekkjum í dag, með fjölbreytt úrval tegunda sem eru framleiddar í litlu magni eða tímabundið.

Með þessu hefur skapast ákveðið samkeppnisumhverfi þar sem hallar á smærri brugghús sem eiga erfiðara með að selja vörur sínar til neytenda en stærri samkeppnisaðilar. Það held ég að hljóti að vera veigamikið atriði því þetta er jú vara sem er á markaði. Í því sambandi myndi ég líta svo á að ákveðinn kjarni þessa máls lúti einmitt að heilbrigðara samkeppnisumhverfi. Því finnst mér að ekki megi líta alveg fram hjá því, enda þótt við séum að fjalla um áfengi, að ekki yrði hægt að víkja alfarið frá þeim sjónarmiðum samkeppninnar þar, þótt vitaskuld lúti áfengi öðrum lögmálum en gilda um hverja aðra vöru. Ég ætla að taka það sérstaklega fram að það er auðvitað þannig, og barnaskapur að viðurkenna það ekki, að þessi vara og neysla hennar er víða vandamál. Kostnaður einstaklinga sem og samfélagsins alls vegna áfengis er mikill og það er auðvitað ástæða þess að um áfengi gilda og hafa gilt sérstakar reglur til þess að mæta þeim veruleika.

Að því sögðu er hér engu að síður um að ræða vöru sem er á markaði. Ég tel að það skref sem hér er verið að stíga muni stuðla að því að markaðurinn með þessar vörur verði heilbrigðari en hann var fyrir. Sá hluti sem varðaði netverslunina fól auðvitað líka í sér ákveðna nálgun um samkeppni milli innlendra og erlendra aðila, að jafna leikinn í því samhengi milli innlendra aðila og erlendra. En ég myndi vilja ljúka máli mínu á að segja að það sem eftir stendur er vissulega jákvætt og gott og mun verða til góðs svo langt sem það nær og styðja við smærri brugghús. Ég hlakka til að taka þátt í umræðu um þetta mál innan allsherjar- og menntamálanefndar þegar málið kemur þangað en styð þetta mál.