151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er gott að heyra svona skýran stuðning við málið. Það er að sjálfsögðu rétt sem hv. þingmaður segir, horft var til nágrannalanda okkar. Þegar útfærslan með netverslunarpartinum var inni var hún svolítið lík leiðinni sem Finnland fór til að gæta jafnræðis milli innlendrar og erlendrar vöru. Á sama tíma og þeir liðkuðu fyrir handverksbrugghúsunum liðkuðu þeir fyrir öðrum bjór í tilteknum öðrum verslunum til að erlendar vörur stæðu ekki hallari fæti en þær innlendu, sem hafði verið gert hátt undir höfði með breytingunum á handverksbrugghúsunum. Það er nokkuð sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd þarf að skoða. Eins og hv. þingmaður fer yfir skýtur það skökku við að íslenskir neytendur geti pantað sér áfengi úr erlendum áfengisverslunum, eða eiginlega bara frá öllum sem ekki eiga lögheimili á Íslandi, og fengið það innan örfárra daga. Það er auðvitað bagalegt að löggjöfin sé með þeim hætti að íslenskir aðilar séu farnir að leita sér að undankomuleiðum í því að senda sitt íslenska áfenga öl úr landi til að íslenskir aðilar geti pantað það heim aftur. Og það sjáum við auðvitað. Mér fannst formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna komast vel að orði í grein sem hún skrifaði. Hún sagði að þetta væri reykspúandi lýðheilsa enda áhrifin af þessu kannski aðallega umhverfisleg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún muni taka þessa umræðu upp í hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða þetta jafnræði, enda held ég að það standist varla nútímalegar kröfur um jafnræði. Staða innlendra aðila er kannski enn þá verri í dag en þegar frumvarpið fór fyrst í samráðsgátt í lok 2019 og enn meiri ástæða til að (Forseti hringir.) hjálpa innlendum aðilum að mega sjálfir selja löglega neysluvöru.