151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki síst þess vegna sem ég barðist í marga mánuði fyrir því að fá frumvarpið í gegn með hinni breytingunni, til að tryggja þessi ólíku sjónarmið en líka til að tryggja að hin handverksbrugghúsin og þeir sem eru aðilar að samtökum handverksbrugghúsa gætu fengið aðra leið fyrir sína vöru, þeir sem eru til að mynda með hærra áfengisprósentuhlutfall eða eru að framleiða annað en áfengt öl. Þetta var líka til að tryggja það. Af því að hv. þingmaður kemur inn á lýðheilsusjónarmiðin er það auðvitað áhugavert að rannsóknir sýna vissulega að aukið aðgengi að áfengi getur stuðlað að aukinni neyslu. En það eru engar rannsóknir sem sýna að aukið aðgengi að áfengi stuðli að aukinni ofneyslu. Það sjáum við í löndum þar sem áfengisstefnan er hörðust og margir sem ekki neyta áfengis vegna trúar sinnar. Í þeim hópi sem neytir áfengis þar er oft og tíðum mesta ofneyslan. Það er áhugavert að skoða það í tengslum við lýðheilsusjónarmiðin en líka þá staðreynd að áfengisverslanir ríkisins hafa aldrei verið fleiri hér, opnunartíminn hefur aldrei verið lengri, vínveitingaleyfin hafa aldrei verið fleiri og þeim hefur fjölgað hratt á undanförnum árum, en áfengisneysla, ofneysla áfengis, hefur ekki aukist. Við sjáum það í tölum frá landlækni, eins og ég vísaði í. Auðvitað þarf að taka það inn í umræðna. Eigum við að vera með mjög íþyngjandi löggjöf fyrir innlenda aðila? Fyrir hvað? Eða eigum við frekar að eyða fjármununum í forvarnir, sem virka að mínu mati mun betur en þessar kríteríur um að íslensk netverslun muni öllu umbylta? Staðan er sú, og hún er mjög skýr, að hægt er að kaupa áfengi af erlendri netverslun og fá sendinguna til sín innan sólarhrings.