151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um breytingu á áfengislögum um sölu á framleiðslustað. Við í þingflokki Vinstri grænna gerðum fyrirvara við þetta mál þegar það var afgreitt út úr þingflokknum og höfum raunar, í öllum umræðum sem hafa farið hér fram um breytingar á áfengislögum, lagt áherslu á að áfengi sé engin venjuleg neysluvara og að ekki eigi að meðhöndla það sem slíkt og höfum bent á og haldið til haga og tekið undir með þeim sem hafa bent á heilbrigðis- og lýðheilsusjónarmið í þeim efnum. Það er á þeim grunni sem við höfum talað um breytingar sem áður hafa verið lagðar fram varðandi smásölu á áfengi.

Allir sem hafa fylgst með umræðu um þessi mál undanfarin misseri, ár eða jafnvel áratugi held ég að þekki vel þessi sjónarmið. Það hefur auðvitað margítrekað verið bent á að aukið aðgengi stuðli að aukinni neyslu og við höfum svo sannarlega fengið góðar og ítarlegar umsagnir hvað það varðar, m.a. frá embætti landlæknis. Mér finnst persónulega að hér hafi ráðherrann gert vel í því að leggja fram mál sem ég held að geti orðið grundvöllur að einhverju sem við gætum kannski náð saman um, þ.e. að þeir sem á annað borð eru komnir á stað þar sem fram fer framleiðsla á öli geti keypt vöruna og tekið með sér heim. En ég held að allsherjar- og menntamálanefnd verði að kafa mjög vel ofan í þá umgjörð sem þar er sett utan um því eins og málið horfir við mér finnst mér, eins og málið er lagt fram, að það snúist í raun um bragðprufu sem fólk hefur með sér heim en ekki magninnkaup á vörunni. Ég vil bara taka það fram, vegna þess að það eru skiptar skoðanir um nákvæmlega þetta í þingflokki VG, að ég er hér að lýsa skoðun minni á nákvæmlega þessu efni.

Mér finnst því ekki endilega boða allt of gott að ráðherra segi hér að hún telji að frumvarpið eins og það er hér lagt fram standist mögulega ekki jafnræðissjónarmið vegna þess að hér er ekki verið að leyfa netverslun. Í mínum huga er það einmitt í þessum búningi sem mér finnst vera flötur á því að skoða það vegna þess að í raun er ekki verið að gera breytingu á sölunni hvað varðar mikið magn og þannig væri hægt að halda utan um lýðheilsuvinkilinn á málinu. En að því sögðu held ég að nú sé gott að allsherjar- og menntamálanefnd kafi rækilega ofan í málið og umgjörðina og að í þeirri vinnu verði einmitt einnig kallað eftir sjónarmiðum þeirra sem hafa sérstaklega verið að benda á lýðheilsuhlutann í málum sem snúa að áfengislöggjöfinni. Ég ætla í það minnsta að skoða málið með opnum en gagnrýnum og varfærnum huga.