151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að finna leið sem er einmitt framkvæmanleg og skýr og hægt að nota. Ég er ekki í neinum vafa um að það sé hægt vegna þess að við erum að ræða um vöru sem er seld í stykkjatali yfirleitt. Ég held að við þurfum bara að skoða mjög gaumgæfilega í nefndinni hvernig við gerum það því að eins og málið er lagt fram þá snýst það um að litlir framleiðendur fái heimild til þess að selja þeim sem koma til þeirra vöru sína. Mér finnst það eitt og sér í raun benda til þess að hér séum við að tala um eitthvað sem er í frekar litlu magni, þó svo að það sé auðvitað alltaf skilgreiningaratriði. Þetta sé ekki einhvers konar hjáleið fram hjá því að magninnkaup fari áfram fram í gegnum ÁTVR. Ég er viss um að ég og hv. þingmaður eigum eftir að skoða þetta og fara í gegnum í nefndinni. Líkt og ég sagði í ræðu minni áðan þá koma lýðheilsusjónarmið inn þegar kemur að magninu og það þurfum við að fara yfir.