151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það síðasta sem ég velti upp varðandi þá umræðu, sem mun auðvitað fara fram síðan í nefndinni vegna skoðana ýmissa þingmanna á því að það megi bara selja einn eða tvo eða þrjá eða sex bjóra í einu, er hver vandinn er og hver raunveruleg staða þessara brugghúsa er. Brugghús í heimabyggð á erfitt með að fá áfengi sitt selt í verslunum nálægt sér. Aðili á höfuðborgarsvæðinu þarf að ná ákveðnum árangri í sölu þar svo að það dreifist víða o.s.frv. Þannig að ef einstaklingur sem býr í sama bæjarfélagi og brugghúsið ætlar að kaupa magn af áfengi fyrir veislu þá á að beina honum í áfengisverslun ríkisins á svæðinu sem selur bara bjóra frá stórum framleiðendum eða erlenda bjóra. Það er raunverulega staðan sem blasir við þessum brugghúsum. Aðilar á svæðinu geta oft og tíðum ekki keypt af þeim bjórinn nema þeir ferðist til höfuðborgarsvæðisins eða í stærri áfengisverslanir annars staðar. Það er bara staðan sem blasir við þeim og mér þætti eðlilegt að leysa úr og gera þeim kleift að selja sína vöru, sem er afar lítil framleiðsla miðað við heildarframleiðslu á Íslandi, í heimabyggð til að styðja við framleiðslu þeirra. Íbúar þyrftu ekki að leita annað eða halda kannski veisluna í vínveitingasal sem gæti afgreitt þennan bjór. Þeir geta ekki gert það sjálfir í sinni eigin veislu. Þetta er bara raunveruleikinn eftir spjall mitt við marga bruggara og marga aðila í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa sem eru mjög spenntir fyrir því að fá leyfi frá þinginu til að (Forseti hringir.) gera störf sín, sem eru oft svo mikilvæg fyrir heimabyggðir þeirra, auðveldari.