151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil mjög vel sjónarmið litlu brugghúsanna sem vilja einmitt geta selt þeim sem til þeirra koma vöruna sem þau framleiða. Það er einmitt á þeim grundvelli sem ég hef stutt málið vegna þess að ég held að það geti verið gott fyrir ýmis byggðarlög og fyrir þessi fyrirtæki að hafa þennan möguleika. Nú getur þú gengið inn í áfengisverslun ríkisins hvar sem er og beðið um að vara sem er seld í einhverju ríki sé pöntuð á þinn afgreiðslustað og sem betur fer er vöruframboð í hinum ýmsu verslunum úti um land orðið þannig að mjög oft er verið að selja bjóra sem eru framleiddir á því svæði. Þannig að mér finnst það ekki vera rök sem halda vatni að það þurfi að vera hægt að kaupa í einhverju magni til að geta haldið stærri viðburði beint út úr brugghúsunum því að það er alltaf hægt að gera það í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ég endurtek bara enn einu sinni það sem ég hef áður sagt að mér finnst skipta miklu máli (Forseti hringir.) að þetta sé leið þar sem er hægt að stíga mjög lítil skref og hægt að (Forseti hringir.) kaupa í magni sem telst ekki vera magninnkaup.