151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, þar sem lagt er til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Þar með er frumvarpinu ætlað að styðja við smærri brugghús, sérstaklega á landsbyggðinni, en umtalsverð gróska hefur verið í bruggun áfengs öls á síðastliðnum árum. Nú eru tugir smærri brugghúsa starfandi um allt land sem framleiða fjölbreytt úrval afurða, oft með sérstakri skírskotun til umhverfisins sem þau starfa í.

Fram kemur að við gerð frumvarpsins hafi m.a. verið horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum en þar er smærri brugghúsum almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu, þó með mismunandi takmörkunum. Ég get að einhverju leyti tekið undir það markmið og finnst reyndar mjög mikilvægt að fundnar séu leiðir til að tryggja sanngjarnt starfsumhverfi fyrir þá atvinnustarfsemi sem rekstur lítilla brugghúsa er en velti fyrir mér hvort sú leið sem hér er lögð til sé heppilegasta eða farsælasta leiðin, m.a. af því að hún leiðir til breytinga á aðgengi að áfengi. En á hinn bóginn, eins og áður sagði, lít ég á þetta mál sem atvinnumál að nokkru leyti og beini því sérstaklega til allsherjar- og menntamálanefndar að rýna starfsumhverfi brugghúsanna á alla kanta og kem aðeins aftur að því síðar í máli mínu.

Við afgreiðslu frumvarpsins frá þingflokki Framsóknarmanna setti ég fyrirvara við afgreiðsluna ásamt raunar fleiri þingmönnum flokksins. Ég kem hér fyrst og fremst til að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Í ljósi lýðheilsusjónarmiða geri ég fyrirvara vegna þess að frumvarpið felur í sér aukið aðgengi að áfengi og því tel ég brýnt að við meðferð málsins verði farið yfir möguleg áhrif þess á lýðheilsu og hvernig eftirliti með sölunni yrði háttað út frá því sjónarmiði. Sérstaklega er mikilvægt að horft yrði til mögulegra áhrifa á börn og ungmenni. Verði frumvarpið að lögum þarf að liggja fyrir hvernig áhrif á lýðheilsu yrðu vöktuð og þá, í ljósi markmiða frumvarpsins, jafnvel staðbundið.

Ítrekað hefur komið fram hér í þingsal við umræður um breytingar á áfengislöggjöfinni að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Eins og lög um verslun með áfengi og tóbak eru nú er þeim því ætlað að skilgreina umgjörð um sölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á vernd lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Markmið þeirra er að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu og vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á þessum að mörgu leyti óæskilegu vörum. Það er mikilvægt að halda þeim markmiðum til haga við umfjöllun um þetta mál í nefndinni og því kalla ég eftir að rætt verði við sérfræðinga og áhugafólk um forvarnir, um samfélagsleg áhrif af þessu frumvarpi á einstaklinga, heimili, sveitarfélög og ekki síst ríkissjóð, og þar með verði við umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd farið yfir möguleg áhrif af auknu aðgengi að áfengi og hvernig mætti þá draga úr þeim áhrifum, verði frumvarpið samþykkt í einhverri mynd.

Þá langar mig að nefna nýlega skýrslu sem við þingmenn höfum fengið þar sem bent er sérstaklega á að áfengi er snar þáttur í framgangi farsótta og hefur ítrekað verið bent á t.d. áhrif áfengis á smit bæði berkla og alnæmis. Svo höfum við nýlega fengið skýrslu sem sýnir fram á banvæn tengsl milli áfengis og kórónuveirufaraldursins og vil bara rétt að minna á að rýnt verði hvernig mætti koma í veg fyrir slík áhrif.

Þá vil ég benda á að þegar frumvarpið fór í samráðsgátt var það töluvert frábrugðið því frumvarpi sem liggur hér fyrir. Í rauninni var gert ráð fyrir umfangsmeiri breytingum eins og hæstv. ráðherra fór yfir fyrr í umræðunni og því má segja að þau áform sem hér er lagt upp með hafi kannski svolítið fallið í skuggann af áformunum um netverslun í þeim athugasemdum sem bárust varðandi aukið aðgengi og þær tillögur sem hér liggja fyrir séu þá kannski óræddar að einhverju leyti hvað varðar áhrif á lýðheilsu og þess þá heldur mikilvægt að nefndin fari vel yfir þau.

En þá langar mig að koma aftur að starfsumhverfi brugghúsa og velti fyrir mér hvort sú leið sem hér er lagt upp með sé heppilegasta eða farsælasta leiðin til að tryggja starfsumhverfi brugghúsanna eða hvort aðrar leiðir væru færar sem ekki hefðu á sama hátt áhrif á aðgengi að áfengi og þar með lýðheilsu. Ég ætla bara að nefna t.d. jöfnun raforkukostnaðar um landið, jöfnun flutningskostnaðar, breytingar á reglum um sölu áfengis í næstu áfengisverslun, sem er ekki endilega alltaf 100 km í burtu, og síðan mögulegar breytingar á áfengisgjaldi gagnvart þessum framleiðendum. Verði það hins vegar niðurstaða nefndarinnar að leiðin sem lögð er til í frumvarpinu sé vænleg vil ég að lokum beina því til nefndarinnar að huga að jafnræði smáframleiðenda því ljóst er að þeir falla ekki allir undir frumvarpið eins og það liggur fyrir, hvorki allir smáframleiðendur öls né framleiðendur sterkara áfengis og því mikilvægt að skoða það.

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur verk að vinna og þar tel ég að lýðheilsusjónarmiðin þurfi að vera í forgrunni í allri vinnunni og einkum í ljósi hagsmuna barna.