151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er auðvitað rétt að lýðheilsusjónarmiðin komi inn og þau hafa auðvitað gert það að einhverju marki. Reyndar má geta þess að í samráðsgátt var mikill stuðningur við akkúrat þá breytingu sem er að finna í þessu frumvarpi. Ég verð að játa að ég sé ekki fyrir mér að það myndi kollvarpa ástandi landsins í áfengismálum þó að frumvarpið næði fram að ganga og jafnvel þó að gengið yrði lengra í frjálsræðisátt að einhverju leyti í þessu. Það verður auðvitað að hafa í huga að þegar við ræðum um fjölda sölustaða, lýðheilsu og annað þess háttar eru náttúrlega óteljandi — eða ég veit ekki hvað það eru margir staðir, veitingastaðir með ýmiss konar leyfi, sem selja áfengi vítt og breitt um landið. Þau brugghús sem hér um ræðir eru tiltölulega fá í því samhengi. Ég veit ekki hvort það breytir í grundvallaratriðum áhrifunum af bjórnum hvort menn drekka hann inni á staðnum eða fara út með hann. Ég held að það séu kannski aðrir þættir sem ráða meiru í því sambandi.

Eins og ég sagði áðan er ég almennt þeirrar skoðunar að áfengi sé ekki hættulegri vara þegar starfsmaður einkafyrirtækis selur hana en þegar starfsmaður ríkisverslunar selur hana. Það hefur verið markviss stefna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að fjölga afgreiðslustöðum, lengja afgreiðslutíma og bæta þar með þjónustu við viðskiptavini. Ég held að það hafi ekki leitt til stórtjóns fyrir heilsufar landsmanna.